Samstöðumáttur kærleikans

- Olga Björt Þórðardóttir skrifar.

Það er nær ógerlegt að reyna að setja sig í spor foreldra sem horfa á barnið sitt þjást og geta ekkert gert; hvað þá tvö börn. Rut Þorsteinsdóttir og eiginmaður hennar, Chad Keilen, hafa í tíu ár staðið í baráttu við heilbrigðis- og velferðarkerfið vegna dætra sinna, Helenu Sólar og Emilíu Ísabel, sem eru mikið fatlaðar og flogaveikar. Vegna óvissu um hvað hrjáir systurnar og hvernig mögulega sé hægt að bæta líðan þeirra ákváðu hjónin að leita út fyrir landsteinana til að koma stúlkunum í meðferð sem ekki er í boði hér á landi. Þar dvelur fjölskyldan næstu vikurnar.

Samhliða áföllum, óvissu og ströggli hafa Rut og Chad þurft að mæta mótlæti eins og að vera vænd um Munchausen heilkennið. Það lýsir sér þannig að foreldrar, oftast móðir, vilja að eitthvað sé að barni sínu. „Okkur var aldrei veitt áfallahjálp, allt var keyrt áfram og okkur hent út í djúpu laugina og við áttum bara að læra að bjarga okkur. Þegar maður er nýr þá veit maður ekkert og skellurinn getur komið miklu seinna. Það vantar teymi sem heldur utan um svona foreldra,“ segir Rut í einlægu viðtali í nýjasta tölublaði Víkurfrétta. 

Fyrir fimm mánuðum fæddist þeim hjónum sonurinn Stefán sem veitt hefur þeim mikla gleði. Hann ber öll þess merki að vera heilbrigður. Einhverjir áttu erfitt með að samgleðjast og óska þeim til hamingju þegar Rut var ófrísk. „Fólk var að kjafta úti í bæ og að dæma okkur heima hjá sér. Þá finnur maður vel hversu gott fólk við höfum í okkar innsta hring sem studdi okkur vel. Við nefnilega ákváðum að lifa ekki í hræðslu,“ segir Rut í viðtalinu. 

Þegar Rut og Chad höfðu komist á snoðir um meðferð sem gæti gagnast dætrum sínum setti Chad færslu á Facebook sem hafði í för með sér afdrifaríkar afleiðingar. Þá sýndu Suðurnesjamenn hversu megnugir þeir geta verið og sýnt mikla samstöðu. Styrkir bárust allt frá skólafélögum systranna til slökkviliðsmanna BS. Fjölskyldan varð orðlaus, hrærð og þurfti líka dálítið í leiðinni að læra að þiggja. Það lýsir þeim því kannski vel að þegar Víkurfréttir höfðu samband við Rut vegna viðtals tók hún sérstaklega fram að hún vildi ekki tengja það við styrktarreikning. Við vitum þó að það er deginum ljósara að fólk í þeirra sporum þarf á stuðningi samfélagsins að halda. 

Við vitum aldrei í hverra sporum við gætum lent og orð og gjörðir endurspegla innri mann. Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.