Samstöðuleysi?

Ragnheiður Elín Árnadóttir hefur ákveðið að kveðja stjórnmálin eftir að hafa lotið í lægra haldi í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi. Hún segist sannfærð um að stjórnmálin, eins og samfélagið allt, séu betri og árangursríkari þegar bæði kynin eiga sæti við borðið en hún og Unnur Brá Konráðsdóttir, tvær af ellefu frambjóðendum enduðu í 4. og 5. sæti prófkjörsins. Ragnheiður var ráðherra iðnaðar- og viðskipta í núverandi ríkisstjórn en hún er fyrsti ráðherra Suðurnesjamanna í þessum stóra stjórnmálaflokki. Nú er ljóst að Suðurnesjamenn eiga ekki möguleika á ráðherra í næstu ríkisstjórn úr Sjálfstæðisflokknum, nái flokkurinn því að komast þangað. Svona er pólitíkin og mikil umræða hefur spunnist í framhaldi af prófkjörinu um kynjamál sem og það hvort prófkjör sé rétt aðferð í uppröðun á lista. Sumir telja aðferðina góða þar sem þátttakendur leggja flestir mikla vinnu í undirbúning og öflun atkvæða. Aðrir telja að aðferðin sé þannig að mjög fáir gangi sáttir frá borði. Ásmundur Friðriksson, sem endaði í 2. sæti í prófkjörinu, gagnrýndi t.d. stuðningsmenn Páls Magnússonar harkalega tveimur dögum fyrir prófkjör fyrir óheiðarlega kosningabaráttu en sagði svo að því loknu. „Prófkjör hafa góða kosti sem jafnframt eru stóru gallarnir. Það er aðeins einn sem getur sigrað og fáir komist í örugg sæti á listum. Þeir sem eftir sitja sleikja sárin. Grimmdin getur farið út fyrir öll mörk og vinabönd eru slitin en vonandi gróa þau með tímanum,“ sagði Ásmundur á Facebook síðu sinni eftir prófkjörið.  

Það er ekki ólíklegt að það muni taka smá tíma að stilla saman strengi bæði á Suðurnesjum sem og í flokknum. Alla vega er ljóst að samstöðuleysi skilaði því að Eyjamaður hirti forystusætið. „Eyjamenn sýndu samstöðu en Suðurnesjamenn tvístruðust,“ sagði Árni Sigfússon, fyrrverandi bæjarstjóri í Reykjanesbæ. Hér skal ekki lagður dómur í þessa umræðu því hún hefur vissulega margar hliðar en oft hefur verið talað um að samstöðu vanti iðulega innan raða Suðurnesjamanna í ýmsum málum. Það hafi komið skýrt fram í þessu prófkjöri. Það hlýtur að vera umhugsunarefni.

 

Páll Ketilsson
ritstjóri