Sameiningarafl Suðurnesjamanna

Það er óhætt að segja að það hafi hýrnað yfir okkur Suðurnesjamönnum á undanförnum árum. Nú erum við í svaka stuði, allt í vaðandi sveiflu og bros á flestum andlitum. Enda ekki ástæða til annars. Fasteignir hækka og fljúga út og næg atvinna í boði. Svo er komin Ljósanótt, sú sautjánda í röð.

Ljósanótt er magnað sameiningarafl og kallar á flest það besta hjá Suðurnesjamönnum, að minnsta kosti einu sinni á ári. Á Ljósanótt eru íbúar Reykjanesbæjar í essinu sínu. Í þessu risastóra blaði vikunnar hjá VF er hægt að sjá brot af mörgu því besta sem í boði verður á Ljósanótt. Hundruð bæjarbúa verða í mörgum skemmtilegum hlutverkum, sýnandi myndverk og margs konar list, flytjandi tónlist eða eitthvað annað skemmtilegt eins og að bjóða kjötsúpu. Pæliði í því. Axel og hans fólk í Skólamat bjóða þúsundum Ljósanæturgesta kjötsúpu og  bæjarstjórnarbandið spilar á bryggjuballi á sama tíma. Ungt fólk í gamla bæ Keflavíkur býður á heimatónleika og svo tekur við mögnuð dagskrá á laugardegi með árgangagöngu og Magnús okkar Kjartansson verður aðal númerið á stóra sviðinu um kvöldið. Við á VF hittum Magga í vikunni og fórum smá rölt með honum um bæinn og fengum kappann til að segja okkur frá nokkrum áhugaverðum köflum í lífi hans en kappinn fagnar 65 ára afmæli á þessu ári. Hann mundi til dæmis eftir að hafa verið í partýi í húsi sem hann fæddist í við Ásabraut í Keflavík eftir ball í Stapa. Svo skemmtilega vill til að tvö bekkjarsystkin Magga, myndlistarkonan Fríða Rögvalds og hagfræðingurinn og ljósmyndarinn Stefán Ólafsson verða í öðruvísi partýi í Gömlu Búð við Duus-húsin og sýna þar myndir sínar. Valdimar, nýjasta stórstjarna Suðurnesjamanna, setur punktinn yfir i-ið í kirkjunni í Höfnum á sunnudag. Svona er hægt að telja upp mjög lengi áhugaverð atriði á Ljósanótt 2016.

Við á Víkurfréttum ætlum að vera á ferðinni og spreyta okkur á beinum útsendingum á vf.is, á Youtube og Facebook. Við erum að fikra okkur áfram í tækninni þannig að endilega stillið á vf.is þar sem þið getið fylgst með okkur færa ykkur Ljósanóttina í símann, spjaldtölvuna eða bara í tölvuna heima. Við sýnum ykkur svo bland í poka í sjónvarpsþætti næstu viku.

Gleðilega Ljósanótt!

Páll Ketilsson
ritstjóri.