Sameining er málið

Uppákoman í Garðinum í síðustu viku þegar meirihluti bæjarstjórnar féll var óneitanlega sérstök. Eins og fram hefur komið kostar þessi gjörningur þetta litla sveitarfélag mikla peninga. Uppákoman varð til út af deilum sem tengjast grunnskólanum og um síðustu áramót var skólastjóra sagt upp störfum og það kostaði líka mikla peninga. Deilur um skólann munu kosta þegar upp verður staðið á annað hundrað milljónir þegar allt er tekið til. Það eru miklir peningar.

Nýr meirihluti ætlar að tryggja lýðræði, nokkuð sem gamli meirihlutinn var gagnrýndur fyrir að gera ekki, með bæjarstjóra í stefninu sem þótti fara mikinn í stjórn bæjarfélagsins og varð til þess að meirihlutinn sprakk. Er ekki lag fyrir nýjan meirihluta að taka stórt skref og skoða alvarlega sameiningu við Reykjanesbæ? Þó það sé svolítið harðneskjulegt að segja það þá virðist sú alvarlega staða vera komin upp í Garðinum að bæjarfélagið er betur sett ef aðrir koma að stjórnun þess. Undirliggjandi ólga virðist því miður vera of mikil á milli aðila til að sátt náist. Þegar sá þáttur er lagður við hagræðinguna við sameiningu þá ætti dæmið að vera nokkuð skýrt.

Bæjarráð Reykjanesbæjar gaf tóninn á fundi í síðustu viku í kjölfar sprengingarinnar í Garðinum og sagði að nú væri lag að fara í sameiningu og taka Sandgerði með í pakkann. Þegar fyrsta alvöru sameining sveitarfélaga á Íslandi varð að veruleika árið 1994 sameinuðust Keflavík, Njarðvík og Hafnir. Reynsla hefur sýnt að það var rétt skref. Þeir sem voru á móti því á þeim tíma sem var verulegur minnihluti en kosið var um sameininguna meðal bæjarbúa, sjá í dag að þetta var það eina rétta. Á þessum tíma var skoðað alvarlega að sameina öll sveitarfélögin á Suðurnesjum og haldnir fundir um málin í þeim öllum. Þá var mikil andstaða í Garði og í Sandgerði og enn meiri í Grindavík. Í dag, eftir kreppu er hins vegar allt önnur staða og frá sameiningu Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna hafa orðið miklar breytingar í rekstri sveitarfélaga.

Þetta ætti því ekki að vera nein spurning núna. Öll þessi sveitarfélög eiga við rekstrarvanda að stríða um þessar mundir þó eignastaðan sé betri í Garði og í Reykjanesbæ. Krafa á öll sveitarfélög í dag, hvort sem þau eru stór eða smá, er að halda uppi góðri þjónustu á öllum sviðum og sú krafa bara eykst. Til þess að mæta þessari þjónustuþörf, minnka rekstrarkostnað og nýta sameiginleg atvinnusvæði er hægt að búa til 17 þúsund manna sveitarfélag ef Garður og Sandgerði sameinast Reykjanesbæ en í Garði búa 1500 manns og 1700 í Sandgerði. Allir sjá að svona smáar rekstrareiningar eins og Garður og Sandgerði eru, ganga ekki upp. Það þarf enga rekstrarhagfræðinga til að segja það. Bæjarstjórinn í Reykjanesbæ skrifar grein í Víkurfréttir í dag og tekur saman góðan pistil um þetta mál. Hann býður þessi sveitarfélög velkomin í eina sæng.

Þegar lega þessara sveitarfélaga er skoðuð sést að aðeins er 10 mínútna akstur á milli ráðhúsa þeirra. Það er deginum ljósara að hægt er að spara peninga sem hægt er að nýta í að gera þjónustu sveitarfélaganna betri og hagræða í rekstri til framtíðar litið. Í Garði og í Sandgerði kostar yfirstjórn árlega um 60-80 milljónir króna á hvorum stað. Í dag nýta þessi sveitarfélög þjónustu Reykjanesbæjar í skólamálum. Húsakynni eru vegleg á báðum stöðum sem kosta verulegar fjárhæðir. Að undanförnu hafa Sandgerði og Garður sameinast um nokkra þjónustuþætti til að ná fram sparnaði og það hefur gefist vel. Nú er bara að stíga skrefið til fulls. Fara alla leið. Það er ekki eftir neinu að bíða. Sveitarstjórnarkosningar eru eftir tvö ár og þann tíma er tilvalið að nota til að undirbúa sameininguna sem hægt væri að kjósa um þá.