Sagt hefur það verið um (flotta) Suðurnesjamenn!

Víkufréttir völdu nú í tuttugasta og áttunda sinn „Mann ársins á Suðurnesjum“. Frumkvöðullinn Fida Abu Libdeh hlýtur viðurkenninguna að þessu sinni og er sannarlega vel að henni komin. Fida stofnaði frumkvöðlafyrirtækið Geosilica með skólafélaga sínum og nú um áramótin fór í fyrsta sinn í sölu frá fyrirtækinu, hágæða fæðubótarefni, unnið úr náttúrulegum íslenskum jarðhitakísli.

Saga Fidu er mögnuð. Öskubuskusaga. Hún er frábær fyrirmynd þeirra sem hafa draum og gera allt til þess að láta hann rætast. Þrátt fyrir margar hindranir eins og erfitt tungumál sem íslenskan er og lesblindu sem uppgötvaðist ekki fyrr en eftir framhaldsskóla, hefur hún afrekað ótrúlega hluti frá því hún kom til Íslands frá Palestínu á unglingsaldri. „Menntaferð“ Fidu var torsótt en hún sá tækifæri hjá háskólasamfélaginu Keili á Ásbrú árið 2007 þegar skólinn byrjaði með svokallaða háskólabrú. Þar gefst fólki kostur á að ljúka stúdentsprófi og Fida hafði verið í erfiðleikum með tungumálafög eins og íslensku og dönsku en mjög góð í öðrum greinum. Fida lauk þar stúdentsprófi með stæl og fylgdi því eftir með háskólanámi í tæknifræði frá sama skóla. Hún var greind með lesblindu þegar hún kom í skólann í upphafi en það hafði háð henni mikið samhliða því að læra tungumálið en eftir það var greiðin leið. Hún lauk ekki aðeins háskólaprófi heldur bætti við sig MBA námi sem hún er að klára í vor en það hefur hún stundað samhliða uppbyggingu frumkvöðlafyrirtækisins.

Saga Fidu tengist mörgum jákvæðum þáttum í uppbyggingu Suðurnesja eftir efnahagshrun, þar sem hún náði að nýta sér mörg tækifæri til menntunar og betri framtíðar. Hún er í framlínu „heilsu og tækni“ í nýja fyrirtækinu en þetta tvennt hefur verið áberandi í samfélaginu. Hún lét ekki erfiðleika stoppa sig og hún talar einnig af mikilli ánægju um hvernig henni hafi verið tekið á Suðurnesjum og er þakklát fyrir tækifærin og mikla aðstoð á leiðinni. Framkoma hennar, ljúf lund og skemmtilegheit smita út frá sér, nokkuð sem þeir sem hafa kynnst henni nefna gjarnan úr hennar fari.

Fyrstu árin sem Víkurfréttir völdu Mann ársins voru karlar í fiskvinnslu og útgerð í sviðsljósinu. Fjórir fiskikarlar fengu viðurkenningu á fyrsta áratugnum og segir svolítið um samfélagið á þeim tíma. Á síðustu fimm árum hefur nýsköpun, tækni, íþróttir og heilsa verið meira áberandi. Í fyrra fékk Klemenz Sæmundsson, hlaupa- og hjólagarpur, viðurkenninguna en hann hjólaði í kringum landið á fimmtugsafmæli sínu. Árið 2012 völdum við Suðuresjatónlistarfólkið Nönnu og Brynjar í hljómsveitinni Of Monsters and Men og 2011 Guðmund Gunnarsson júdóþjálfara. Árið 2010 völdum við Axel Jónsson í Skólamat sem var vissulega nýsköpunarfyrirtæki sem hann þróaði á mörgum árum. Þetta eru allt flottir menn ársins á Suðurnesjum. Fólk sem er Suðurnesjunum til sóma alveg eins og Fida á eftir að verða.

Páll Ketilsson
ritstjóri.