Rödd fólksins hefur áhrif

Málefni kísilvera í Helguvík hafa vissulega verið mál málanna í Reykjanesbæ að undanförnu og náði nýjum hæðum í vikunni þegar Alþingi boðaði til fundar um stöðu mála. Þar kom reyndar fátt nýtt fram en eftir fundinn sögðu tveir aðilar í viðtali við fréttamann VF (sjáið viðtal á vf.is) sem staðið hafa í framlínu þeirra sem mótmælt hafa starfsemi kísilvers United Silicon að þrýstingur íbúa hafi skilað sér og náð eyrum alþingismanna. „Það er jákvætt að Alþingi taki þetta mál upp. Það sýnir að lætin í okkur hafa skilað sér,“ segir Dagný Halla Ágústsdóttir, íbúi í Reykjanesbæ en hún sat fundinn ásamt Þórólfi Júlían Dagssyni fyrir hönd íbúa.

Þó svo það hafi verið mikill meirihluti sem var sammála stóriðju í Helguvík í skoðanakönnun sem gerð var fyrir um það bil ári síðan er ljóst að stuðningsmönnum stóriðju þar eða í bæjarfélaginu, hefur fækkað mikið. Og líka í bæjarstjórninni því hún samþykkti í vikunni að það yrði ekki samþykkt frekari stóriðja í Helguvík á þeirra vakt. „Við höfum stigið það skref að minnka þetta verulega og læra kannski af reynslunni, við hefðum kannski átt að bregðast fyrr við,“ sagði Friðjón Einarsson formaður bæjarráðs á fundi Umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis um málefni United Silicon. Annað sem hefur gerst er að þessi ógangur, ef svo má segja, í starfsemi United Silicon, hefur m.a. haft áhrif á fjárfesta og þá sér í lagi forráðamenn stórra lífeyrissjóða sem höfðu ákveðið í fyrra að setja verulega peninga í Thorsil kísilverið. Þeir hiksta núna og sagt er að fjármögnun verksmiðjunnar sé komin á byrjunarreit. Það gæti líklega þýtt að bygging hennar sé í hættu. Það hefur komið fram í umræðum um málefni í Helguvík að það sé erfitt að stoppa af mál sem hafa verið samþykkt í bæjarstjórn og íbúar hafi skellt skollaeyrum við í undirbúningnum, eins og gerðist greinilega í stóriðjumálum Helguvíkur. Þó seint sé, er þó ljóst að rödd íbúa hefur áhrif. Þetta ætti líka að vera lærdómur í því og bæjarbúar verða að vera á tánum þegar stærri mál koma upp og leitað er eftir áliti þeirra á þeim.

En úr kísilþrasi í skemmtilegri mál. Fréttamenn Víkurfrétta eru stöðugt á  þeysingi og í blaði vikunnar er skemmtilegt viðtal við ungan mann úr Njarðvík, Arnar Stefánsson, en hann gerði sér lítið fyrir og tók upp myndskeið á símann sinn allt árið 2016, reyndar ekki nema 2 sekúndur á dag af hinum og þessum viðburðum en úr varð magnað myndband. Þetta er skemmtilegt mál í mannlífinu á Suðurnesjum og við sýnum þetta líka í Suðurnesjamagasíni vikunnar. En hann er ekki eini ungi maðurinn í sviðsljósinu hjá okkur því við spjöllum líka við Ellert Björn Ómarsson, ungan Keflvíking, sem lærði húsasmíði en skellti sér svo í arkitektúr til viðbótar. Það ku vera ansi skemmtilegt kombó. Margt fleira áhugavert í miðlum VF í vikunni en við biðjum fólk endilega að benda okkur á hin margvíslegu mál sem eiga heima þar.