Reykspúandi bæjarfélag?

Það er óhætt að segja að nýbyggt kísilver United Silicon í Helguvík hafi verið á vörum margra íbúa Reykjanesbæjar eða kannski réttara sagt í augum og vitum þeirra. Reykþef og reykmengun lagði yfir bæinn þegar verið var að gangsetja ofninn sem bræðir kvars og býr til kísilmálm. Sá sem þetta ritar var einn af þeim sem fann lyktina í tvígang fyrstu dagana og varð ekki hrifinn. Viðbrögð urðu mjög mikil á samfélagsmiðlum, skammir sendar til verksmiðjunnar, bæjaryfirvalda og einhverra fleiri. Fasteignaverð mun lækka og það mun enginn vilja eiga heima í verksmiðjubæ sögðu skríbentar.

Það er alveg hægt að taka undir kvartanir fólks vegna mengunar og nú er bara að vona að orð forsvarsmanna verksmiðjunnar um að þetta verði ekki varandi ástand, einungis byrjunarörðugleikar. Gert sé ráð fyrir að brennsluofninn verði kominn í full afköst nú um mánaðarmótin og mengun verði þá fyrir bí. Umhverfisstofnun hefur sagt að mengun hafi ekki farið yfir nein mörk en hún vaktar verksmiðjuna.

 

Það er vissulega hægt að taka undir áhyggjur bæjarbúa í þessum málum því vissulega viljum við ekki að Reykjanesbær verði reykspúandi bæjarfélag. Það er orðið mjög fátítt að lönd í Evrópu vilji fá svona verksmiðjur en vissulega eru margar eldri verksmiðjur sem spúa reyk og mengun í borgum og bæjum. Eldri Keflvíkingar og Njarðvíkingar geta rifjað upp með vissum hryllingi þegar fiskimjölsverksmiðja á bæjarmörkum Keflavíkur og Njarðvíkur spúaði mjög vondri og oft stækri lykt sem lagðist yfir bæinn. Það var kallað gúanó og þá þurftu mæðurnar að sæta lagi með að setja þvott út á snúru. Ef vindáttin var þannig að hún lá yfir hverfið fór þvotturinn ekki út. En þetta var kölluð „peningalykt“ og kvartanir bæjarbúa fóru ekki hærra en það. Þegar yfirvöld í Reykjanesbæ samþykktu að taka á móti álveri og kísilmálmverksmiðjum var atvinnuástand mjög slæmt í Reykjanesbæ og nágrenni og þannig að mörgu leyti hægt að skilja þá sem unnu að þessum málum. Nú þegar ferðamaðurinn hefur hreinsað út atvinnuleysi á Suðurnesjum og víðar er ljóst að lang flestir vilja ekki sjá svona verksmiðjur. Það er bara þannig. En það er alltaf hægt að vera vitur eftir á og það er sá lærdómur sem við eigum að taka með okkur. Íbúar í Reykjanesbæ sem og líklega stjórnendur bæjarins voru dofnir yfir ömurlegu atvinnuástandi og gerðu og samþykktu allt sem gat lagað það. Það jákvæða við þetta er að það verða til mörg störf í Helguvík og tekjur af þessari starfsemi munu hjálpa til með stöðu hafnarinnar sem er stórskuldug.