Reykjaneshringur í einum spreng

Ritstjórnarpistill Eyþórs Sæmundssonar

Blaðamenn Víkurfrétta fóru í ferðalag um Reykjanesið í síðustu viku. Aldrei þessu vant var ákveðið að yfirgefa skrifborðið og heimsækja ferðamannastaði á svæðinu sem ekki heita Bláa Lónið. Garðskaginn var fyrsti viðkomustaður. Hann er vinsæll bæði meðal heimamanna og ferðalanga. Þar er að eiga sér stað nokkur uppbygging, kaffihús í gamla vita, stórt og mikið hótel er að rísa, tjaldsvæði er á svæðinu ásamt byggðasafni og væntanlegum veitingastað. Það sem er þó jafnvel mikilvægast, það er salerni á Garðskaga. Eftir stopp í Garðinum lá leiðin í gegnum Sandgerði. Þegar komið er út á Hvalsnes, áfram framhjá Höfnum og út á Reykjanes, er hvergi salernisaðstöðu að sjá.

Við brúna á milli heimsálfa var fjöldi fólks og stanslaust rennerí af bílum. Undirritaður var þá kominn í nettan pissuspreng en datt ekki til hugar að láta vaða við bílaplanið við brúna. Það var ekki ætlunin að fara í slíkt ferðalag í spreng, en gerir þessa grein og upplifunina óneitanlega meira spennandi. Ýmislegt lagt á sig í rannsóknarskyni. Leiðin lá næst að Gunnuhver. Þar var á annan tug bíla og full rúta af ferðamönnum renndi í hlað þegar blaðamenn bar að garði. Hvergi var kamar að sjá og blaðran farin að þenjast. Ferðamenn voru yfir sig hrifnir af hvernum og hafði einn sem var duglegur að mynda hverinn með dróna, á orði að Reykjanes væri fallegasta svæðið á landinu. Við Reykjanesvita var einnig talsverður fjöldi af fólki sem gekk fram á óvarðar háar klettabrúnir þar sem aldan blasir við fyrir neðan. Það er frekar sérstakt að aldrei hafi verið hreyft við jörðu þarna við Valahnjúk. Fólk hefur keyrt hraunið niður í áratugi og lagt bílum sínum á víð og dreif. Þarna þyrfti að setja plan sem stjórnar umferðinni um svæðið. Það er víst allt á teikniborðinu. Enn var ekkert salerni að sjá og því um að gera að haska sér aftur til byggða ef ekki ætti illa að fara. Þegar við vorum svo komnir aftur að Höfnum þá sagði blaðran stopp. Brugðið var á það ráð að pissa á bryggjunni í Höfnum í felum fyrir skipsverjum sem stóðu skammt undan. Hafnarbúar eru víst vanir svona viðbjóði þar sem ferðafólk hefur gert þarfir sínar í kirkjugarðinum. Ég biðst hér með forláts á þessari hegðun en með auknum vexti í blöðrunni varð eitthvað undan að láta.

Eyþór Sæmundsson
Blaðamaður Víkurfrétta