Okkar eigin Geysir

- ritstjórnargrein.

Eins og Víkurfréttir hafa greint frá í vikunni er aukin virkni við Gunnuhver á Reykjanesi og þurfti lögreglan að loka öðrum útsýnispallinum á hverasvæðinu vegna hættuástands sem þar skapaðist um tíma. Leir þeyttist marga metra í loft upp úr sjóðandi hver og mikil gufa steig einnig upp úr hvernum. Fjallað var um málið víða í fjölmiðlum í kjölfarið og Gunnuhver komst ærlega og verðskuldað á kortið.

Þegar slík náttúrundur láta á sér kræla, og ekki er útlit fyrir að hætta sé á ferðum, laða þau að sér forvitna ferðamenn og gesti. „Svæðið er lifandi þessa dagana og við höfum orðið vör við meiri áhuga á því. Við erum að sjá hérna mikinn fjölda ferðamanna og gesta sem eru að koma til að sjá og upplifa hvað er að gerast,“ segir Eggert Sólberg Jónsson, verkefnastjóri hjá Heklunni, í viðtali í nýjasta þætti Sjónvarps Víkurfrétta. Í tengslum við ferðaþjónustu á Reykjanesi sé Gunnuhver er hluti af heildinni sem verið er að skapa með Reykjanes Jarðvang.

Oft hefur verið lögð á það áhersla að líta sér nær og skoða og upplifa það sem náttúran hefur upp á að bjóða í nærumhverfinu. Markaðsstofur landshlutanna hafa í samvinnu við Ferðamálastofu ráðist í átak sem ber yfirskriftina „Í ferðahug“ þar sem Íslendingar eru hvattir til að ferðast um landið, upplifa og njóta. Framleidd verða nokkur myndbönd í vetur með mismunandi þemum sem deilt verður á samfélagsmiðlum og þau tengd við þá vöru/þjónustu sem fyrirtæki bjóða upp á.

Nú er komið að okkur Reyknesingum að skella okkur í bíltúr, rútuferð, hjólaferð eða göngu um okkar svæði, vera stolt af því og vekja á því athygli með aðstoð tækninnar. Þess á meðal er náttúruperla eins og Gunnuhver - okkar eigin Geysir.