Óhugnanleg upprifjun

Það er svolítið óhugnanlegt að rifja upp einn sérstæðasta atburð í sögu Suðurnesjamanna sem gerðist fyrir tíu árum síðan. Þá fór stærsti vinnuveitandi svæðisins til hálfrar aldar í burtu frá landinu kalda, með manni og mús. Mikill fjöldi fólks, langflestir íbúar á Suðurnesjum, misstu vinnuna út af þessari brottför. Við erum auðvitað að tala um Varnarliðið. Ungir lesendur, ja, ef ekki flestir undir tvítugu vita varla að hér hafi verið bandarískur her á Keflavíkurflugvelli. Skilja líklega ekkert hvað hér er verið að fjalla um, nema að foreldrar eða frekar amma eða afi hafi sagt þeim frá því að þau hafi starfað í verslun Varnarliðsins, á símanum, í Messanum eða „pöblik-vörks“ og spyrja eflaust, hvað var það? Varnarlið sem veitti þúsundum manna störf í hálfa öld hvarf af landi brott með nokkur þúsund Ameríkana og skildi rúmlega þúsund Íslendinga eftir atvinnulausa. Fyrirvarinn þegar ákvörðun hafði verið tekin hjá bandarískum stjórnvöldum, um að hverfa á brott, var ekki mikill. Hálft ár leið frá ákvörðun þar til varnarsvæðið á Keflavíkurflugvelli, þar sem Varnarliðið hafði aðstöðu, geymdi aðeins byggingar, gamla orustuþotu og rúmlega hálfrar aldar sögu. Allt fólkið var farið. Kanaútvarpið þagnað. Margir Íslendingar, flestir Suðurnesjamenn, trúðu þessu ekki eða vildu ekki trúa þessu.

„Það var líkt og það hefði komið stór jarðskjálfti. Fólk var auðvitað skelfingu lostið,“ rifjar Guðbrandur Einarsson, formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja upp en margir starfsmenn á Vellinum voru í því stéttarfélagi en einnig í Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur og nágrennis. Kristján Gunnarsson, formaður þess, rifjar þetta líka upp í viðtali við VF og segir meðal annars að nokkrum árum áður en herinn fór, var umræða á Suðurnesjum um að sú staða gæti komið upp að Varnarliðið væri farið að huga að brottflutningi. Kristján fór þá ásamt Jóhanni Geirdal, þáverandi formanni Verslunarmannafélags Suðurnesja, á fund Steingríms Hermannssonar, þáverandi forsætisráðherra, til að ræða um undirbúning ef til þess kæmi. Kristján segir fólk utan Suðurnesja almennt ekki hafa deilt áhyggjum þeirra. „Það var horft á okkur eins og við værum eitthvað skrítnir því brottför varnarliðsins þótti svo fjarstæðukennd.“ Hann segir að verkalýðsforkólfar um landið hafi heldur ekki haft mikla samúð með Suðurnesjamönnum þegar varnarliðið fór og að ríkið hafi ekki á neinn hátt veitt byggðaaðstoð til að takast á við atvinnumissi svo margra.

Nokkuð athyglisverð ummæli verkalýðsforingjans en segja nokkuð um viðbrögð stjórnvalda og margra aðila sem fannst þetta ekki mikið mál. Það vildi til að svonefnt góðæri var í hæstu hæðum á árinu 2006 þegar Varnarliðið fór og því fengu margir fljótt önnur störf þó svo að margir, sérstaklega eldra fólk, fengi ekki nýja vinnu. En svo þegar bankahrunið bankaði á dyrnar voru margir fyrrum starfsmanna Varnarliðsins sem fengu fyrstir uppsögn.

Nú eru liðin tíu ár. Suðurnesjamenn þóttu hafa farið offari í góðærinu og fengu ekki mikla samkennd eða samúð í mesta atvinnuleysi seinni tíma en fljótlega eftir bankahrun fór atvinnuleysi í hæstu hæðir á svæðinu. Þegar Kristján verkalýðsforingi nefnir í viðtalinu „byggðaaðstoð“ er ekki svo vitlaust að velta því fyrir sér ef við setjum töluna 1000 í annað samhengi, segjum til dæmis að svona hefði gerst á höfuðborgarsvæðinu, sem er um það bil tíu sinnum stærra svæði en Suðurnesin. Hvað hefði gerst ef tíu þúsund manns hefðu misst vinnuna? Sá sem þetta ritar setur þetta fram til umhugsunar því ríkisvaldið og Alþingi, þeir sem ráða miklu, gerðu ekkert til að lækna þetta sár, gáfu varla sprautu til að deyfa sársaukann. Hefði ekkert verið gert ef tíu þúsund manns hefðu misst vinnuna á höfuðborgarsvæðinu eða 100 til 200 manns misst vinnuna á Vestfjörðum?

Við birtum viðtöl við verkalýðsforingja, fyrrverandi bæjarstjóra og upplýsingafulltrúa Varnarliðsins í þessu blaði og í sjónvarpsþætti vikunnar. Þeir rifja upp viðbrögð og hvað hafi verið gert. Okkur finnst þetta nefnilega ansi merkilegt í sögu svæðisins og munum fjalla meira um málið á næstunni. Skoða til dæmis hvernig hafi tekist til við endurreisn gamla varnarsvæðisins. Hvað er eiginlega gert þegar nokkur þúsund manna bæjarfélag fer bara í burtu? Hvað er gert við byggingarnar og hvernig tóku Íslendingar við stórum verkefnum sem Varnarliðið hafði greitt fyrir milljarða í mörg ár og séð um í áratugi?

Mjög margir vita að endurreisn Keflavíkurflugvallar, sem áður hýsti Ameríkana, orustuþotur og herþyrlur þeirra, hefur gengið vel og þar er nú orðið nokkuð magnað og flott samfélag með framtíð. Meira um það síðar.

Páll Ketilsson
ritstjóri