Of seint!

Það er óneitanlega sérstök staða sem íbúar Reykjanesbæjar standa frammi fyrir þessa dagana. Eftir að hafa staðið í áróðursbaráttu fyrir álveri og aukinni stóriðjustarfsemi í Helguvík til hjálpar atvinnulífinu er hópur fólks núna á móti stóriðju. Fjölmenn mótmælaganga gegn kísilveri Thorsils var farin síðastliðinn þriðjudag. Hestamenn í Hestamannafélaginu Mána leiddu gönguna en þeir hafa miklar áhyggjur af mengun frá stóriðjuverum í Helguvík. Nýverið var sagt frá reynslu bónda í Hvalfirði sem telur að flúormengun frá álverinu í Grundartanga sé ástæða þess að tólf hross hafa drepist. Það hefur þó ekki fengist staðfest og hefur verið kvartað undan ónógum rannsóknum.

Það hafa runnið tvær grímur á marga bæjarbúa sem hafa áhyggjur af loftmengun frá stóriðjuverum í Helguvík. Sá sem þetta ritar er einn af þeim. Staðan er þó einfaldlega þannig að það er of seint. Áhyggjurnar hefðu þurft að koma fyrr, t.d. þegar aðalskipulag var samþykkt sem gerir ráð fyrir verksmiðjustarfsemi í Helguvík. Það hafa líka verið tækifæri eftir það, t.d. þegar starfsleyfi álvers og kísilsvers United Silicon voru kynnt á opnum fundum. Þar mættu nánast engir. Málefni með næsta kísilveri eru því miður líka komin of langt.

Viðkomandi aðilar sem hafa gert samninga um starfsemi þarna hafa eytt milljónum og eflaust hundruðum milljóna í undirbúning vegna byggingar verksmiðjanna. Ef svo færi að málefni Thorsils kísilversins færu í íbúakosningu og niðurstaðan þar yrði sú að íbúar væru á móti því að kísilverið færi í gang, gæti það þýtt skaðabótakröfu á hendur Reykjanesbæ. Það er ekkert sem kemur í veg fyrir fyrra kísilverið (United Silicon), það er komið með öll leyfi og framkvæmdir hafnar. Bæði kísilverin hafa gert milljarða sölusamninga til margra ára. Þeir sem eru á móti þessu vöknuðu því miður of seint.

Það sem íbúar geta hins vegar gert núna og í framtíðinni er að þrýsta á að stíft eftirlit verði haft með mengun frá stóriðjuverunum í Helguvík. Og að það eftirlit verði mun virkara en verið hefur í álverinu í Hvalfirði.
Það er þó engan veginn sanngjarnt að setja bæjarstjórn Reykjanesbæjar í þá stöðu að fara að stoppa þetta af núna eftir margra ára undirbúning. Reykjanesbær þarf að halda haus í svona máli því umræða um svona getur líka haft slæm áhrif á framtíðina. Fjölmörg fyrirtæki eru í alvarlegri skoðun að hefja rekstur í Helguvík. Það yrði ekki gott til afspurnar og mjög ótrúverðugt fyrir bæjarfélagið ef málefni kísilversins færu í hnút. Það má heldur ekki gleyma því að Umhverfisstofnun hefur gefið grænt ljós og telur að mengun verði innan marka.

Nú þegar samningaviðræður milli atvinnurekenda og launaþegasamtaka standa sem hæst má minna á það að aukin atvinnutækifæri á svæðinu ættu alltaf að hífa kaup fólks upp. Samkeppni um starfsfólk gerir það. Bygging kísilveranna í Helguvík mun búa til mörg hundruð störf á byggingartímanum og einnig fjölmörg eftir að þeim framkvæmdum lýkur. Tómu húsin og íbúðirnar á Suðurnesjum munu fá nýja íbúa. Fyrirtækin á svæðinu munu fá meiri viðskipti frá fleiri íbúum sem hafa betri launuð störf. Milljarðarnir sem kostað var til uppbyggingar innviða til að taka á móti fólki og atvinnustarfsfemi koma til baka með fleiri fyrirtækjum sem hefja starfsemi og með fleiri atvinnutækifærum. Öðruvísi munu skuldir Reykjanesbæjar til dæmis ekki lækka. Öðruvísi munu hæstu gjöld á íbúa sveitarfélaga á Íslandi ekki lækka. Fólkið mun á endanum borga skuldirnar. Því fleiri sem búa til tekjur til bæjarfélagsins - þeim auðveldara verður það verk.