Ný og óvænt Sókn!

Olga Björt skrifar.

Góðar fréttir hafa streymt til skrifstofu Víkurfrétta undanfarna daga við vinnslu blaðins. Ber þar sérstaklega að nefna tímamótafrétt í sögu íslenskrar stjórnsýslu og fjársýslu um að loksins sé komin lausn fyrir Reykjanesbæ að losa sig undan sligandi 40 milljarða skuldaþunga. Skipt verður um kennitölu og hún færð á sérstakan bókhaldslykil. Líklega hefði fáum dottið í hug að þetta væri mögulegt en glufa í sveitarstjórnarlögum gerði ráðamönnum þetta kleift og verður bærinn framvegis rekinn sem byggðarsamlag. 
 
Bæjarbúar geta þá að vonum tekið gleði sína á ný því með þessari einföldu aðgerð lækka skuldbindingar bæjarins um 70% og íbúarnir geta sótt um lágmarksútsvar í þjónustuveri bæjarins með því að framvísa rafrænum skilríkjum. Það að skuldir Reykjanesbæjar lækki úr 40 milljörðum í 12 gefur stjórnendum ærlegan byr í seglin með að forgangsraða algjörlega upp á nýtt. 
 
Áhrifanna er strax farið að gæta því eins og fram kemur í frétt um aðgengismál á vegum íþrótta- og tómstundaráðs á bls. tvö í páskablaði Víkurfrétta verður farið í það á næstu dögum að bæta aðgengi við Innileikjagarðinn á Ásbrú. 
 
Eftir áberandi neikvæða umfjöllun í stærri fjölmiðlum á landinu á undanförnum mánuðum og árum um fjárhagsstöðu Reykjanesbæjar, eftir hrun og her, geta þeir mögulega aldeilis farið að taka eftir öllu því jákvæða sem gerist hér á svæðinu og sýna því meiri áhuga. Orðspor þess mun rísa á ný. 
 
Við getum því sannarlega litið framtíðarinnar björtum augum með vor í hjörtum. 
Gleðilega páska!