Minna karp - meira gaman!

Ljósanótt 2015 er gengin í garð, sextánda hátíðin. Fyrsta hátíðin var haldin árið 2000 og er óhætt að segja að mjór hafi verið mikils vísir því hátíðin er nú orðin lang stærsti viðburður á Suðurnesjum ár hvert.

Það sem er ánægjulegt með Ljósanótt er að heimamenn taka saman höndum um að gera hátíðina veglega. Þeir eru í öllum helstu hlutverkum og stjórna eða koma að stærstu viðburðunum og einnig þeim minni.

Það er erfitt að tína út markverða atburði því þeir eru svo margir. Þó held ég að ekki verði á neinn hallað þó Björgvin Guðmundsson ljósmyndari fái stærsta hrósið. Sýningin „Andlit bæjarins“ þar sem hann myndaði yfir 500 manns og sýnir 300 þeirra í listasal Duus-húsa í Keflavík, er ákaflega skemmtileg hugmynd og hana ætlar ljósmyndarinn að þróa áfram. Það verður spennandi að fylgjast með því.

Í blaðinu í dag er að finna umfjöllun í fréttum og myndum um atburði úr dagskrá en hápunkturinn verður að venju myndarleg flugeldasýning á laugardagskvöld. Það þarf ekki að orðlengja hvað þessi hátíð spilar orðið stórt hlutverk í því að styrkja ímynd Reykjanesbæjar auk þess sem hún sameinar bæjarbúa í verki og fjöri.

Þó er ekki að neita að undirrituðum finnst það sérstakt þegar einn skóli í bæjarfélaginu tekur sig til og mótmælir blöðrusleppingum vegna „mengunar“ en svona er þetta. Mótmæli eru vinsæl í dag hversu skrýtið það kann að hljóma. Hins vegar má vel huga að breytingum á formlegri opnun Ljósanætur. Menn ættu að geta sæst á það þó svo það sé orðið ansi margt sem ekki má í dag eða tilefni er til að mótmæla. Umhverfissinnar hafa keyrt í gegn kosningu gegn kísilveri í Helguvík, sem mun kosta slatta af milljónum úr tómum kassa Reykjanesbæjar, heyrst hafa mótmæli vegna hávaða frá flugvélum og þá hefur einnig verið kvartað yfir vondi lykt vegna fiskibræðslu í Helguvík. Það er vandlifað í þessum heimi. Eitt af stóru lúxusverkefnunum á næstunni er hvernig hægt verður að manna fleiri störf á Suðurnesjum. Það þarf að snúa við vondri umræðu um svæðið og bæjarbúar þurfa að vinna að því verkefni saman. Minnka karpið. Gleðilega Ljósanótt!