Mikilvægi afmælisbarnsins

Það hefur verið sagt hér í blaðinu að stundum hafi skort á samstöðu í sumum málum á Suðurnesjum og þess vegna hafi ekki náðst sá árangur sem vænta hefði mátt, ef hún hefði verið til staðar. Þingmenn okkar hafa til dæmis verið skammaðir fyrir að standa ekki saman. Sveitarstjórnarmenn hafa einnig verið skammaðir fyrir samstöðuleysi í ýmsum málefnum sem tengjast svæðinu. Af hverju í ósköpunum sjá þeir til dæmis ekki hag í því að sameina sveitarfélögin?

En þeir eru ekki og hafa ekki verið alslæmir, síður en svo. Í einu mikilvægu máli hafa sveitarfélögin, sveitarstjórnarmenn og þingmenn í áratugi staðið saman að málefnum Fjölbrautaskóla Suðurnesja, sem nú fagnar 40 ára afmæli. Kristján Ásmundsson, skólameistari FS segir svo þegar hann rifjar upp ýmislegt úr sögu skólans: „Það var fyrst og fremst vegna dugnaðar, stórhugs og bjartsýni forvígismanna sem og áhugi og vilji sveitarstjórnarmanna, sem varð til þess að hugmyndin varð að veruleika. Samstaða allra sveitastjórnarmanna og einhugur ásamt áhuga þeirra á að veita ungmennum hæfilega menntun í heimabyggð réði úrslitum um málalokin í þessari baráttu fyrir stofnun skólans. Sveitarfélögin á svæðinu hafa frá stofnun skólans verið öflugur málsvari hans og bakhjarl og stutt uppbyggingu hans alveg frá byrjun. Að sama skapi vona ég að skólinn hafi reynst vel fyrir svæðið í heild. Skólinn hefur alltaf reynt að laga sig að þörfum svæðisins og lagt sig fram um að mæta óskum Suðurnesjamanna um menntun.“

Í heimsókn okkar á Víkurfréttum í skólann, viðtölum við núverandi og fyrrverandi nemendur og kennara er ljóst að flestir eru sammála um nauðsyn skólans í samfélaginu á Suðurnesjum. Það er virkilega gaman að sjá ótrúlega fjölbreytta starfsemi í skólanum, iðngreinar og bóknámsgreinar í sama skóla. Iðandi líf og nám.

Hér gæti einhver spurt, til hvers þarf að þakka fyrir þetta? Er þetta ekki sjálfsagt mál að það sé skóli á svæðinu? Jú, kannski en samt ekki. Suðurnesjamenn hafa í gegnum tíðina þurft að berjast fyrir ansi mörgu. Þeir gerðu það í þessu tilviki. Hvað gerðist til dæmis þegar kvótinn hvarf að miklu leyti frá Keflavík og Njarðvík á sínum tíma og hvað gerðist þegar Varnarliðið fór með manni og mús? Ekki voru Suðurnesjamenn með nógu sterka rödd á Alþingi þegar þetta gerðist.

FS er núna einn stærsti vinnustaður á Suðurnesjum, er með á annað þúsund nemendur og hann hefur á fjörutíu árum útskrifað yfir 5 þúsund manns. Gamla FS-inga er að finna í flestum stigum og störfum þjóðfélagsins og við getum verið stolt af þeim. Og munum verða það áfram.

Páll Ketilsson
ritstjóri VF