Messa sem Suðurnesjamenn verða að sækja

Suðurnesjamenn hafa ekki verið duglegastir í messusókn þó vissulega sé kirkjustarf í sókn, sérstaklega í Keflavík. En nú er messa sem Suðurnesjamenn verða að fjölmenna í. Þetta er atvinnumessa sem haldin verður í Reykjanesbæ 13. apríl. Þar ætla atvinnurekendur, sveitarfélög og fyrirtæki á svæðinu að kynna störf sem í boði eru á svæðinu. Þetta er hluti af átakinu Vinnandi vegur á vegum Atvinnumálastofnunar og er ætlað atvinnuleitendum. Markmiðið er að skapa fleiri störf. Oft er þörf er nú er nauðsyn. Hér þurfa allir að leggjast á eitt, atvinnuveitendur og atvinnuleitendur.

Á kynningarfundi sem haldinn var fyrr í vikunni fyrir aðila sem tengjast atvinnumessunni, forráðamenn fyrirtækja, sveitarfélaga og stéttarfélaga á Suðurnesjum, voru allir mjög jákvæðir fyrir þessu framtaki sem þeir telja að geti hjálpað til í slæmu atvinnuástandi á Suðurnesjum um þessar mundir. Mikilvægt sé að sem flestir komi að þátttökunni.

Tilboð Vinnumálastofnunar er mjög gott í þessu átaki. Atvinnurekendum býðst að fá greidda upphæð með nýjum starfsmanni sem nemur atvinnuleysisbótum auk 8% framlags í lífeyrissjóð, samtals um 180 þús. kr. gegn því að ráða fólk sem hefur verið á atvinnuleysisskrá í ár eða meira. Tímalengd ráðningar getur verið allt að tólf mánuðum. Þetta átak stendur til 31. maí og á þeim tíma þurfa þessar ráðningar að eiga sér stað og því er mikilvægt að allir séu á tánum því reynslan er sú að í 70% tilfella hefur fólk haldið vinnunni sem það hefur komist í eftir að hafa verið atvinnulaust í einhvern tíma. Meðal mála sem komu upp á fundinum í þessari umræðu voru almenningssamgöngur sem eru ekki nógu góðar á Suðurnesjum. Nú þegar eldsneyti er í hæstu hæðum getur það tikkað nokkuð hátt í krónum ef það þarf að aka til vinnu lengri leiðir. Þær upplýsingar komu fram að unnið er að frekari útfærslu í samgöngumálum og þá sérstaklega strætóferðum innan Suðurnesja. Því var m.a. hent fram hvort þetta átaksverkefni atvinnumálastofnunar gæti komið að þessum þætti og jafnvel styrkt hann.

Það er farið að bera í bakkafullan lækinn að ræða um fjölda atvinnulausra á Suðurnesjum en því miður er það dapurleg staðreynd að 1368 manns, þar af 644 konur og 724 karlmenn eru á atvinnuleysisskrá og til viðbótar 109 í hlutastarfi. Þar af eru 938 manns án atvinnu í Reykjanesbæ og prósentutalan í Sandgerði er 15% eða 151. Sláandi tölur. Atvinnuleysi er hlutfallslega minnst í Grindavík og staðan því nokkuð góð þar. Bæjarstjórinn þar sagði að þar væri hægt að fá vinnu í fiskvinnslu og í ferðaþjónustu en þessi störf vildu Íslendingar ekki. Hann kom inn á mjög áhugaverðan punkt sem er sá að vinna í fiskvinnslu er gjörbreytt frá því sem var hér á árum áður. Snyrtimennska og aðstaða er allt önnur en í gamla daga og meðaltals mánaðarkaup um 330 þúsund. Það er tvöfalt hærri tala en atvinnuleysisbætur. Suðurnesin byggðust upp á fiski og því eru það ekki jákvæðar fréttir ef okkar fólk hundsar þessa vinnu.

Annar punktur sem bent var á var svört atvinnustarfsemi. Svört vinna er vond og skekkir líka atvinnuleysistölur. Hana þarf að uppræta. Þar er boltinn hjá þeim sem veita slíka atvinnu.