Menntum okkur inn í ferðaþjónustuna

„Við vitum það sjálf þegar við erum að ferðast um heiminn að það sem við viljum er að gista á góðum stað, fá gott viðmót og góðan mat. Þess vegna þurfum við að mennta fólk í þessi störf. Þetta er lykillinn að því að okkur muni vegna vel sem ferðaþjónustulandi, að við menntum fólkið okkar til ferðaþjónustustarfa og þessara sérhæfðu starfa sem þarf í greinina. Við þurfum fleiri matreiðslumenn, framleiðslufólk og annað fagfólk sem sérhæfir sig t.d. í leiðsögn og afþreyingu“.

Þetta segir Jakob Már Harðarson, einn af þremur yfirþjónum á veitingastaðnum Lava í Bláa lóninu. Hann er borinn og barnfæddur Keflvíkingur sem ákvað fyrir 30 árum að læra til þjóns og bætti um betur og lærði einnig matreiðslu. Hann hefur brennandi áhuga á mannlegum samskiptum en það er einmitt það sem þjónastarfið snýsti mikið um. Jakob Már hvetur fólk til að skoða þann möguleika ná sér í menntun sem nýtist í ferðaþjónustunni. Jakob segir tækifærin vera gríðarleg þegar kemur að ferðaþjónustunni. „Allar spár gera ráð fyrir áframhaldandi fjölgun ferðamanna til Íslands, þannig að vöxturinn er til staðar en ég tel að við þurfum að halda vel á spilunum til þess að við viðhöldum vextinum og gerum þá gesti sem sækja okkur heim  ánægða með heimsóknina til Íslands. Það er lykillinn að því að okkur vegni vel í framhaldinu. Ánægður gestur er besta auglýsingin sem við fáum,“ segir Jakob m.a. í viðtali við Víkurfréttir.

Í blaði vikunnar er einnig mjög áhugavert viðtal við þær Sigrúnu Leu og Guðrúnu Emilíu Halldórudætur. Þær eru samrýndar tvíburasystur sem hafa haft óslökkvandi áhuga á Japan frá 14 ára aldri. Þær eru nú 24 ára og búnar að ljúka BA-gráðu í japönsku frá Háskóla Íslands og stóri draumurinn er að flytja til Japans.

Eins og áður þá hvetjum við lesendur til að standa með okkur vaktina og benda okkur á áhugaverð viðfangsefni hér suður með sjó sem eiga erindi í blaðið eða vikulegan sjónvarpsþátt okkar, Sjónvarp Víkurfrétta, sem sendir út þátt á ÍNN á fimmtudagskvöldum kl. 21:30 og á vf.is í háskerpu.

Hilmar Bragi Bárðarson
fréttastjóri VF