Mállausir ferðamenn og fjórhjól á Reykjanesi

Við höfum verið nokkuð upptekin af uppgangi ferðaþjónustunnar á Suðurnesjum að undanförnu en það er kannski ekki að furða. Fjörið er mikið. Það er þriðja hvert hús orðið að gistiheimili og svo eru fleiri hótel á leið í byggingu og önnur í stækkun og stjörnufári. Við heimsækjum Ingigerði Sæmundsdóttur sem býður útlendingum gistipláss í nýlegu einbýlishúsi í Ásahverfi í Njarðvík. Ekki dæmigert íslenskt heimili segir kennslukonan úr Fjölbrautaskólanum en hún stofnsetti Blue View Bed and Breakfast og deilir eldhúsi, stofu og baði með gestunum sem sumir eru mállausir nema á eigin tungumáli. Það vandamál er leyst með aðstoð apps í snjallsímunum. Nú er Ingigerður orðin, að eign sögn, víðsýnni og á heimboð um allan heim. Sjónvarp VF heimsótti Ingigerði og hún er gestur okkar í blaði og í sjónvarpsþætti vikunnar.

Og meira af ferðaþjónustunni. Þeir sem eru ekki með gistipláss selja ýmsa aðra þjónustu til ferðamanna eins og feðgar í Grindavík gera. Tveir synir og pabbinn settu á stofn litla fjórhjólaleigu rétt um það leyti sem góðærið var að segja bless og segja að það hafi verið fínt. Þeir keyptu tíu fjórhjól sem kosta hvert um sig í dag um 2 milljónir króna og byrjuðu þannig smátt. En það var fljótt að breytast með fleiri ferðamönnum á leið til Íslands. Í dag eru þeir með 45 fjórhjól og fleira dót og dótakassinn þeirra kostar því á annað hundrað milljónir króna. Starfsmennirnir orðnir 6 til 7 og rekstur í gangi allt árið. Víkurfréttamenn settu á sig hjálmana og fóru fjórhjólarúnt með Grindavíkurfeðgum og árangur af því má sjá í blaðinu og í sjónvarpsþætti vikunnar. Í ferð okkar sáum við náttúrufegurð Reykjaness frá öðru sjónarhorni en hægt er að hjóla um nánast allan Reykjanesskagann, upp á fjöll og um strandir og hraun. Alveg ótrúlega skemmtilegt og það finnst öllum útlendingunum líka sem þeysast um ósnortna náttúru okkar, út að Gunnuhver og Reykjanesvita þar sem þeir fá grillaðan nýveiddan fisk eða lamb í svartri fjörunni í Sandvíkinni, eða í austari hlutanum í Seltúni og Djúpavatnsleið. En þetta er opið fyrir landann líka og það verður enginn svikinn af svona ferð enda hafa margir starfsmannahópar og fleiri mætt.

Hér hef ég nefnt tvö dæmi úr vexti í atvinnulífinu sem hefur að miklu leyti tengst ferðaþjónustunni á undanförnum árum. Sjávarútvegurinn sem alla tíð hefur verið stærsta útflutningsgrein Íslands er dottin í annað sætið á eftir ferðaþjónustunni en heldur þó sínu striki. Þorskurinn, ufsinn og hvað þetta heitir nú allt saman hverfur ekki og sá guli malar gull, þó verðið rokki eitthvað. Við kíktum á bryggjuna í Sandgerði í vikunni og mynduðu þar flotta fiska í fullum körum. Myndir frá Sjónvarpi Víkurfrétta vöktu athygli utan landssteinanna nýlega þar sem sýnt var frá fiskverkun K&G í Sandgerði í þætti okkar. Það var meðferðin og frágangurinn sem vakti athygli. Alvöru gæðastimpill sem tikkaði inn. Eitthvað sem sjávarútvegurinn hefur þróað og þarf að gera áfram svo fiskurinn seljist á sem hæstu verði.

Páll Ketilsson
ritstjóri