Má bjóða yður kaffi?

Eyþór Sæmundsson blaðamaður skoðar mannlífið á Hafnargötu

Kaffi hefur verið á milli tanna íbúa Reykjanesbæjar að undanförnu. Ekkert meira eða minna en vanalega, en innlegg Kjartans Más bæjarstjóra Reykjanesbæjar á Facebook á dögunum vakti fólk til umhugsunar yfir ástandi Hafnargötunnar. Þar ræddi Kjartan um merkingar fyrir kaffi- og veitingahús sem eru hætt rekstri eða flutt. Einhverjir fóru út fyrir umræðuna og bentu á að kaffi mætti finna hér og þar um bæinn. Það er allt gott og blessað. Mér varð hins vegar hugsað til þess hve döpur Hafnargatan er orðin.

Ég hef verið tíður gestur kaffihúsa undanfarinn áratug. Var jafnvel lattelepjandi á tímabili en er nú búinn að færa mig alfarið yfir í svart eins og Kardashian fjölskyldan. Kaffihús snúast um svo mikið meira en bara góðan sopa eða einhverjar gómsætar veitingar. Þetta er samkomustaður þar sem fólk kemur til þess að njóta mannlífs. Hitta vini, halda fundi, sinna hópverkefnum eða bara til þess að hangsa. Þannig upplifi ég kaffihús.

Stefnumót var þessi staður á Hafnargötunni. Frábær staðsetning og flottar veitingar. Því miður gekk það ekki upp af ýmsum ástæðum sem ég ætla ekki að rekja hér. Einhverjir bæjarbúar kvarta sáran yfir því að staðurinn sé ekki lengur í gangi. Ég ætla ekki að taka of stórt upp í mig (pláss fyrir Kardashian grín hér) en ég óttast að margir þeirra sem kvarta hafi hreinlega ekki verið nógu duglegir að nýta sér þessa þjónustu þegar hún var í boði.

Hafnargatan má muna sinn fífil fegurri. Þar er fjöldi tómra húsa í slæmu ásigkomulagi. Það er ekki boðlegt fyrir svona stórt samfélag og til þess að laða fólk í miðbæinn. Þessi umræða skýtur upp kollinum reglulega og eru skiptar skoðanir um ástæður þess að rekstur gengur illa og af hverju ekkert mannlíf sé á götunni. Ég hef engin svör við því. Ég tel þó að þetta snúist allt um okkar hugarfar. Ef við viljum að þjónusta sem þessi sé til staðar þá verðum við að nýta okkur hana. Eins þarf kraftmikið hugsjónafólk til þess að drífa svona starfsemi áfram. Það er algjört lykilatriði. Það er varla allt flutt í burtu er það? Bærinn okkar verður meira bara svo miklu meira aðlaðandi og heillandi ef hann iðar af lífi bæjarbúa og gesta. Það er ótrúlegt að það gangi ekki að reka kaffihús á einni fjölförnustu götu bæjar sem telur 15.000 íbúa.

Þrátt fyrir að hér séu fín kaffihús og veitingastaðir þá held ég að við getum verið sammála um að við teljum Hafnargötuna ennþá vera hjarta bæjarins. Með fullri virðingu fyrir Krossmóa og efri hluta Hafnargötu þá er Hafnargatan niður frá Skólavegi að Duus húsum ennþá flottasta staðsetning bæjarins fyrir mannlífið okkar. Við þurfum bara að vakna til lífsins og þefa af kaffinu.

Eyþór Sæmundsson blaðamaður Víkurfrétta