Lífleg fiskvinnsla

Það gerðist allt í einu á Íslandi að Íslendingum fannst bara alls ekki svalt að vinna í fiski. Allt í einu fékkst ekki íslenskt fiskverkafólk og þurfti því að leita út fyrir landsteinana eftir vinnuafli. Viðhorfið til fiskvinnslu er að breytast aftur og fleiri og fleiri eru að verða jákvæðari fyrir því að vinna í fiski á ný. Hugsanlega þurfti kreppuna til þess að við Íslendingar myndum sjá það að peningarnir verða alls ekki til í bönkunum, heldur með því að vinna verðmæti úr auðlindinni sem hafið allt í kringum okkur er.

Í Víkurfréttum í dag er tekið hús á tveimur fyrirtækjum í Reykjanesbæ sem vinna með sjávarfang. Annað þeirra heitir Blámar og var stofnað fyrir ári síðan. Þar ræður ríkjum Kristín Örlygsdóttir úr Njarðvíkum. Hún hefur starfað ein í fyrirtækinu þar til í þessari viku að hún réð til sín auka starfskraft, enda mikið að gera.

„Fyrirtækið hefur gengið prýðilega vel frá upphafi en ég þurfti fljótlega frá að hverfa í náminu vegna mikilla anna. Þetta er búið að vera frábært ferðalag og fullt af áskorunum sem hefur sko alveg tekið blóð, svita og tár en vel þess virði,“ segir Kristín í viðtali við Víkurfréttir í blaðinu í dag.

Hitt fyrirtækið sem við tökum hús á er AG Seafood við Hrannargötu í Keflavík. Þar er Arthur Galvez framkvæmdastjóri og stærsti eigandi og hann er með um 50 manns í vinnu. Fyrirtækið hefur sprengt utan af sér húsnæðið við Hrannargötu og ráðist í að kaupa stórt og mikið frystihús í Sandgerði sem nú er verið að standsetja. Þar munu um 100 manns verða við störf í fiskvinnslu í haust. Í miðopnu blaðsins í dag eru viðtöl okkar við fólkið sem vinnur fiskinn og dreifir honum m.a. á innanlandsmarkaði og út í hinn stóra heim.

Það eru fleiri jákvæðar fréttir úr atvinnulífinu í Sandgerði því auk þess sem fyrirtækið AG Seafood er að standsetja þar frystihús, þá er verið að byggja 2200 fermetra fiskvinnslustöð á hafnarsvæðinu fyrir útgerðarmanninn Örn Erlingsson. Sjávarútvegsbærinn Sandgerði mun því von bráðar blómstra enn frekar en fyrir eru í bænum öflug fyrirtæki í fiskvinnslu.

Hilmar Bragi Bárðarson