Lengi lifi tónlist

Sú var tíðin að varla var þverfótað fyrir bílskúrsböndum og hljómsveitum í Reykjanesbæ. Keflavík var vagga rokksins og héðan af Suðurnesjum komu flestir færustu og frægustu tónlistarmenn landins um áratugaskeið. Ennþá erum við að framleiða frambærilegt tónlistarfólk en það er óhætt að segja að blómaskeiðið sé runnið sitt skeið. Ég hugsa að það sé ekki einskorðað við Suðurnesin, þ.e.a.s. hnignun bílskúrsbandsins. Tónlist hefur þróast og breyst mikið frá því Hljómar og fleiri góðar hljómsveitir tóku til starfa á sjöunda áratug síðustu aldar. Þá var rokkið svo nýtt og spennandi. Allir vildu vera í hljómsveitum og ekki þurfti sérstaklega að hafa reynslu eða tónlistarmenntun til þess að vera gjaldgengur í hljómsveit. Í skemmtilegum sjónvarpsþætti sem sýndur var á RÚV á sunnudag um Rúnar Júlíusson heitinn, kom þessi tíðarandi bersýnilega í ljós. Hérna gerðust hlutirnir þegar kom að tónlist.

ATP tónlistarhátíðin stendur nú yfir á Ásbrú, en frá því svæði kom jú rokktónlistin upprunalega til Íslands frá Bandaríkjamönnum. Spennandi verður að sjá hvernig tekst til að halda hátíðina í annað sinn en hún mun líklega verða stærri í sniðum en í fyrra þó vel hafi til tekist þá. Rokksafn Íslands í Hljómahöllinni er önnur rós í hnappagat Suðurnesja hvað varðar tónlistarmenninguna á svæðinu og mættu íbúar Reykjanesbæjar vera stoltir af glæsilegu safni, burtséð frá skoðunum um nafn á húsnæðinu. Svo ætti nú nýtt húsnæðið tónlistaskóla Reykjanesbæjar að halda áfram að geta af sér tónlistarfólk framtíðarinnar. Það er frábært að ennþá, rúmum 50 árum eftir að Hljómar urðu til, eru Suðurnesin nefnd til sögunnar þegar íslensk tónlist ber á góma. Vonandi verður svo áfram enda er tónlistarmenning svo órjúfanlegur hluti af okkur Suðurnesjamönnum.