Kraftur og samstaða kvenna

Í þessu tölublaði vill svo til að umfjöllun um konur er afar áberandi. Það er ekki að ástæðulausu því konur af Suðurnesjum hafa undanfarna daga verið að gera ýmsa góða hluti.

Kolbrún Guðjónsdóttir, sem setið hefur í stjórn taekwondo samband Íslands undanfarin tvö ár, tók í síðustu viku við formennsku í félaginu. Hún er jafnframt fyrsta konan af Suðurnesjum sem verður formaður sérsambands innan ÍSÍ. Í viðtali við Víkurfréttir gerir Kolbrún lítið úr því og segir einnig að formannsstaðan skipti ekki máli sem slík. „Það sem skiptir mig máli er að stjórnin nái að vinna vel saman og sé samstillt í að ná settum markmiðum,“ segir Kolbrún og leggur áherslu á heiðarleika og að allir sitji við sama borð.

Þegar kynntur var meirihluti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar á dögunum var náms- og starfsráðgjafinn Anna Lóa Ólafsdóttir einnig kynnt til leiks sem verðandi forseti bæjarstjórnar. Guðbrandur Einarsson, oddviti Beinnar leiðar, tók þá fram að gleðiefni væri að fá konu í embætti forseta bæjarstjórnar og það myndi breyta ásýnd bæjarstjórnarinnar og bæjarins verulega. Vissulega hafa fleiri konur áður gegnt því embætti, en Anna Lóa er sú fyrsta sem lokið hefur námi í sálgæslu og það gæti mögulega haft einhver áhrif, eins og hún segir sjálf í viðtali við Víkurfréttir: „Mér finnst við oft vera svo upptekin af því þegar rekstur, peningar og stjórnun eru annars vegar að þá sé andlegi og mannlegi þátturinn settir til hliðar,“ segir Anna Lóa og bætir við að með þessum orðum sé hún ekki að halda því fram að fyrri bæjarstjórn hafi ekki gert það, en hún vilji leggja enn meiri áherslu á það því starf bæjarstjórnar snúist um samtal við íbúana.

Þá sýndu 517 konur á öllum mikla samstöðu í Kvennahlaupi ÍSÍ í Reykjanesbæ á laugardaginn var. Yngstu þátttakendur voru nokkurra mánaða í vögnum mæðra sinna og elsti þátttakandinn var 86 ára. Margar kvennanna skráðu sig til leiks á síðasta klukkutímanum fyrir hlaup. Guðbjörg Jónsdóttir, verkefnastjóri hlaupsins í Reykjanesbæ, er hæstánægð og þakkar keppendum og upphiturum í aðsendri grein, fyrir virkilega skemmtilegt hlaup. „Mikil orka, gleði og kraftur mynduðust áður en stelpurnar héldu af stað upp Hringbrautina, ýmist labbandi, skokkandi eða hlaupandi og á öllum aldri, bæði í kerrum og á tveimur jafnskjótum.“ segir Guðbjörg meðal annars.

Kraftur og ósérhlífni kvenna er mikill. Það endurspeglaðist vel þegar Katarina Reinhall, eigandi hundsins Hunter, óð sjóinn upp að mitti til þess að bjarga honum úr hólma, eftir að Hunter hafði verið týndur í tæpa viku.