Komin til að vera

Olga Björt Þórðardóttir skrifar.

Fjölsmiðjan á Suðurnesjum var stofnuð fyrir fjórum árum og eru starfsmenn hennar þrír. Hún er atvinnutengt úrræði fyrir ungt fólk á krossgötum sem hefur flosnað upp úr námi eða vinnu. Unga fólkinu er hjálpað við að finna sér farveg í lífinu og byggja sig upp fyrir framtíðina. Virðing og umburðarlyndi eru lykilorð Fjölsmiðjunnar er unnið er úr frá þeim.

Þorvarður Guðmundsson, forstöðumaður Fjölsmiðjunnar á Suðurnesjum, segir í viðtali í nýjasta tölublaði Víkurfrétta að hún hafi meiri þýðingu fyrir samfélagið nú en nokkurn tímann áður. 18 - 19 krakkar nýta sér úrræðin og stefnt er að því að fjölga þeim í 30. „Einn skjólstæðinga okkar sagði að ef hann væri ekki hér þá væri hann heima í tölvuleik. Við krefjum krakkana um virkni, hringjum í þau ef þau eru ekki mætt og sækjum þau jafnvel.“

Rekstur Fjölsmiðjunnar snýst mikið um starfsemi Nytjamarkaðarins við Smiðjuvelli í Reykjanesbæ. Markaðurinn hefur að sögn Þorvarðar gengið vel og opnunartíminn verið lengdur á fimmtudögum til klukkan sex. Viðskiptavinir hafi haft það á orði að vörurnar þar séu ódýrari en hjá Góða hirðinum, hins þekkta nytjamarkaðar í Reykjavík. Alltaf vanti þó vildarvini Fjölsmiðjunnar, einstaklinga sem vilji láta gott af sér leiða, og einnig ábendingar um góð verkefni sem ungmenni geti tekið að sér.

Í vor var ráðinn atvinnuráðgjafi til Fjölsmiðjunnar, Helga María Finnbjörnsdóttir, og ungmennin fá ákveðinn tíma með henni þar sem þau setjast niður og ræða málin, hvort sem það er eitthvað sem þau glíma við í persónulegu lífi sínu eða annars staðar. „Ég skoða með þeim hvað vantar upp á til þess að þau geti farið á almennan vinnumarkað eða í nám. Í því felst m.a. markmiðasetning og ýmis konar fræðsla,“ segir Helga María.

Helga María og Þorvarður eru sammála um að gott sé að starfa við það að efla færni, þroska og sjálfsöryggi ungs fólks. Einnig að hafa möguleika á gera samfélaginu gott og vera hluti af einhverju góðu. Fjölsmiðjan sé sannarlega komin til að vera.