Koma Suðurnesjamennirnir aftur heim?

Þrátt fyrir minnkandi atvinnuleysi á Suðurnesjum bólar lítið á brottfluttum íbúum sem flykktust til Norðurlanda á árunum 2008 til 2013. Morgunblaðið fjallaði í vikunni um flutninga til Norðurlandanna eftir hrun og tölurnar eru sláandi. Nærri 1300 manns frá Suðurnesjum fluttu til Noregs eða nágrannalandanna Svíþjóðar eða Danmerkur á þessum árum.

Ástæðan var aðallega mikið atvinnuleysi á Suðurnesjum og stærstur hluti þessa hóps voru iðnaðarmenn. Þá er hópur námsmanna sem hefur farið út á þessu tímabili stór. Þegar leitað var upplýsinga hjá verkalýðsfélögum á Suðurnesjum var svarið að þetta fólk, hvorki iðnaðarmenn og þeirra fjölskyldur og síðan námsfólkið - er á leiðinni heim, ekki ennþá alla vega. Ástæðurnar eru nokkrar. Námsmenn velja margir að vera að minnsta kosti í 5-6 árum ytra, fá starf þar og freista þess að greiða niður námslánin á þeim tíma. Eygja jafnvel möguleika á að geta lagt eitthvað fyrir. Rafvirkjarnir, smiðirnir og aðrir iðnaðarmenn sem hafa flutt til frænda okkar á Norðurlöndunum hafa margir komið sé vel fyrir í vel launuðum störfum og vinna styttri vinnudag en þeir gerðu hér heima. Iðnaðarmenn á Suðurnesjum hafa nóg að gera og staða þeirra hefur styrkst mikið síðustu tvö árin. Verkefni hafa aukist á ný, t.d. við byggingar gagnavera, uppbyggingar á Reykjanesi og víðar en hvergi fleiri en í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Ekki er séð fyrir endann á þeim á næstu árum þar sem stækkunar- og breytingaferli nær líklega til áratugar. Þetta er líklega áhygguefni fyrir þá aðila sem eru að fara að byggja verksmiðjur í Helguvík, þar sem þörf er á verulegum mannafla sem vinnur þessi störf. Ef þessar verksmiðjur fara í gang fljótlega er kannski von um að okkar fólk í Noregi og nágrenni hugsi heim. Annars mun þurfa að flytja inn vinnuafl til þessara starfa að einhverju leyti. Það væri svolítið sérstakt en samkeppni um starfólk kemur því auðvitað til góða, kaupið mun hækka.

Það verður fróðlegt að fylgjast með þessari þróun á næstu misserum. Skortur á iðnmenntuðu fólki á svæðinu ætti að vera hvatning fyrir skólayfirvöld til að vekja athygli á þessari staðreynd - að það sé góð framtíð fyrir iðnaðarmenn. Það verður alltaf þörf fyrir þá. Ekki er víst að það verði jafn auðvelt fyrir hundruð lögfræðinga að fá störf við hæfi á næstu árum en metaðsókn hefur verið í það nám á undanförnum árum. Líklegt er að leið einhverra lögfræðinganna liggi frekar í þjónustustörf í flugvélunum og ferðaþjónustu en í dómssalina. Þetta er þegar farið að sjást í umsóknum hinna ýmsu starfa, sérstaklega þar sem krafist er góðrar menntunar. Þar er lögfræðimenntað fólk í löngum bunum. En auðvitað er þetta allt breytingum háð og vonandi nær þetta jafnvægi. Það er best.

Páll Ketilsson
ritstjóri.