Kirkjurnar og ferðaþjónustan

Það var vel við hæfi að forsætisráðherra landsins tæki fyrstu skóflustungu að nýrri bændakirkju í 19. aldar stíl í túnfætinum við Minna-Knarrarnes á Vatnsleysuströnd. Hjónin Anna Rut Sverr­is­dótt­ir og Birg­ir Þór­ar­ins­son reisa kirkjuna. Forsætisráðherra sagði þegar hann tók skóflustunguna að athöfnin væri ein sú skemmtilegasta og mest uppörvandi opinbera athöfn sem hann hefði tekið þátt í. Það er kannski ekki að furða að þessi uppákoma hafi verið skemmtilegri en puðið sem kallinn hefur staðið í að undanförnu. Þarna fóru einmitt fram stjórnarmyndunarviðræður Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks við myndun núverandi ríkisstjórnar, á heimilinu að Minna Knarrarnesi.

Hjónin Anna og Birgir eru með litla ferðaþjónustu þarna á þessum fallega stað og kirkjan mun án efa draga til sín fleiri gesti út á Strönd. Það er magnað hvað kirkjur draga að sér marga gesti en þær eru eins og margir vita vinsælustu ferðamannastaðir í mörgum borgum víðs vegar í heiminum.

Ferðaþjónustan nær nú hámarki á Íslandi. Við sjáum dæmi þess í stærstu stóriðju Suðurnesja, Flugstöð Leifs Eiríkssonarar. Hún er viðkomustaður nærri tuttugu flugfélaga og nú er svo komið að flugstöðin rúmar varla alla gestina þegar margar flugvélar eru að koma eða fara á svipuðum tíma. Með tilkomu fleiri lággjaldaflugfélaga er nú ekki eingöngu flugtök og lendingar á morgni og aftur síðdegis heldur líka á tímum á milli, t.d. í kringum miðnætti. Þegar sá sem þetta ritar kom í stöðina nýlega voru tugir manna liggjandi, ýmist dormandi, vakandi eða sofandi um alla jarðhæð hússins. Ekki skemmtilegt en fylgifiskur þess að stöðin er hreinlega sprungin, alla vega á álagstímum. Þetta mátti einnig lesa úr orðum forstjóra Isavia sem var í viðtali í VF í síðustu viku. Ferðaþjónustan hefur mjög góð áhrif á Suðurnesjum fyrir alla sem taka þátt í ferðaævintýrinu. Einn veitingaaðili í Keflavík sagði í vikunni við VF að það væri um 70-80% aukning hjá honum frá því í fyrra. Vitað er um fleiri dæmi um mikla aukningu. Það er eitthvað sem við áttum von á. Nú skiptir miklu máli fyrir alla að taka vel á móti gestunum.

Páll Ketilsson
ritstjóri