Jón og Gunna


Jón Stefánsson skóari í Keflavík er að leggja skóna á hilluna eftir um hálfrar aldar starf á skóvinnustofunni í Keflavík. Jón er skemmtilegt dæmi um fólk sem endist í sama starfinu í langan tíma og Guðrún kona hans sem hefur ekki látið sitt eftir liggja, en hún starfaði m.a. ötullega fyrir eldri borgara í mörg ár. Er það ekki magnað og skemmtilegt að lítið fyrirtæki sé meira en hálfrar aldar gamalt nú þegar kennitöluskipti eru algengari en hitt.

Það hefur margt breyst á hálfri öld ef við skoðum aðeins tímann sem Jón og Gunna skó hafa rekið skóvinnustofuna. Það þarf að grafa djúpt í leit að eldra fyrirtæki á Suðurnesjum þó vissulega sé það ekki mannmargt. Mörg traust fyrirtæki sem höfðu verið með rekstur í áratugi á Suðurnesjum hafa lent í miklum vandræðum eftir bankahrunið. Sum bara dáin. Verslanir, veitingastaðir, verktakafyrirtæki og þjónustuaðilar úr hinum ýmsu geirum atvinnulífsins. Sum þó í rekstri eftir að hafa fengið nýja kennitölu. Ný kennitala þýðir að skuldir viðkomandi eru í langflestum tilfellum felldar niður. Það er vont fyrir þá sem hafa átt inni hjá slíkum aðilum. „Bankinn sagði okkur að skipta um kennitölu,“ sagði eigandi eins fyrirtækis sem hefur verið með rekstur í mörg ár. Sumir eigendur fyrirtækja eru í raun í vinnu fyrir bankana og eru þannig lagað í hálfgerðri gjörgæslu þeirra. Eldmóður og áhugi eigenda og starfsmanna hverfur í slíkum tilfellum. Þá er kannski betur hætt en áfram haldið.

Í úttekt frá því síðla vetrar kom fram að meira en 50% fyrirtækja á Suðurnesjum væru í alvarlegum vanda og myndu jafnvel ekki lifa af árið. Við sem hér búum könnumst langflest við þetta, þekkjum til hjá mörgum aðilum sem hafa lent í erfiðleikum eftir bankahrunið. Það hefur mörgum liðið illa og þurft að horfa á eftir rekstri fyrirtækis, starfsfólk hefur tapað vinnunni og alvarlegt ástandið hefur ekki hjálpað upp á bæjarbraginn á svæðinu. Ekki bætti úr skák þegar Sparisjóðurinn fór eftir hundrað ára rekstur. Sem sagt; mjög erfitt og hálf ömurlegt ástand á mörgum bæjum.

En hvað um það, við verðum að halda áfram. Þrátt fyrir erfiðleika þá eru margir ljósir punktar í samfélaginu á Suðurnesjum. Mörg spennandi tækifæri. Ferðaþjónustan á fleygiferð. Þar er aukningin. Nýtt álver, hvort sem það mun rísa eða ekki mun kannski ekki ná því að standa undir nafni sem stærsti vinnuveitandi á Suðurnesjum. Þar trónir Flugstöð Leifs Eiríkssonar á toppnum og verður líklega næstu árin. Hvort sem við munum sjá álver rísa eða ekki. Hvar værum við annars stödd ef hér væri ekki flugstöð sem leiðir af sér um og yfir tvö þúsund störf. Verði álverið að veruleika mun það þó hafa gríðarleg áhrif út í fyrirtækjasamfélagið á Suðurnesjum og víðar. Sambærilegt álver sömu eigenda á Grundartanga skiptir við 300 fyrirtæki og kaupir af þeim þjónustu og vörur fyrir 10 milljarða á ári. Það munar um minna.