Í okkar höndum

- Olga Björt Þórðardóttir skrifar.

Í flestum ef ekki öllum sveitarfélögum býr fólk sem þykir svo vænt um bæinn sinn að það gefur mikið af tíma sínum í að efla samfélagið þar á einhvern hátt. Þetta fólk er að finna í íþróttahreyfingunni, menningu, listum, stjórnmálum og víðar. Það sem þetta fólk á sameiginlegt er að það er stolt af bænum sínum, talar vel um hann, þykir gott að búa þar og á auðvelt með að sjá tækifærin til að hafa jákvæð og fordæmisgefandi áhrif á samborgara. Hugsjónir og leiðtogahæfni eru orð sem gjarnan eru fest við svona fólk. 
 
Menningarverðlaun Reykjanesbæjar, Súlan, eru ekki einungis veitt fyrir gott starf að menningu og listum, heldur eru þau um leið hvatning til annarra um að láta gott af sér leiða. Guðný Kristjánsdóttir hlaut Súluna í ár en hún hefur starfað og verið í stjórn Leikfélags Keflavíkur í 25 ár og lifað og hrærst í menningarheimi bæjarins í rúma þrjá áratugi. Í viðtali í nýjasta tölublaði Víkurfrétta segir Guðný að leikhúsið hafi mikla þýðingu fyrir þá sem koma að horfa og auðvitað fyrir þá sem taka þátt. Stutt sé í slíka afþreyingu á höfuðborgarsvæðinu því skipti máli að heimafólk sé duglegt að styðja menningu í sínum heimabæ. 
 
Eigendur hinnar rúmlega þrítugu verslunar Kóda taka í svipaðan streng í viðtali í Víkurfréttum, en þær hvetja íbúa á svæðinu til að gefa þeim séns og skoða vöruúrvalið. „Við erum alltaf að fá kúnna sem eru búnir að verja heilum degi í Reykjavík sem þeir eru einhverjar mínútur að versla hér,“ segja þær og að í raun geri fæstir sér grein fyrir því hversu margar verslanir og þjónustufyrirtæki séu á svæðinu og hvað þau standi fyrir. 
 
Sem betur fer er alltaf til fólk sem vill styðja við verslun og þjónustu í sínum heimabæ og leggur áherslu á að kaupa inn þar. Ástu Ben Sigurðardóttur, verslunarstjóra í Pennanum Eymundssyni, þykir t.a.m. afar vænt um að verslunin sé stundum enn kölluð Bókabúðin, en hjá fyrri eigendum hét hún Bókabúð Keflavíkur. „Hugurinn hjá þessu fólki skiptir miklu máli,“ segir hún í viðtali  við Víkurfréttir. 
 
Það þyrfti kannski dálítið að „nostalgíuvæða“ hugarfarið meðal íbúa á Suðurnesjum, finna kjarnann og minna á mikilvægi ákvarðana hvers og eins um að leita ekki langt yfir skammt til að sækja listviðburði, menningu, verslun og þjónustu. Við viljum örugglega öll hafa þetta allt til staðar og innan seilingar. Það er því að miklu leyti í höndum íbúanna hvort mannlíf blómstrar í heimabænum, hvort sem það er á aðventunni eða á öðrum tíma ársins.