Hvers virði eru mannslíf?

Grindavíkurvegur hefur verið eitt heitasta umræðuefnið síðastliðna mánuði en fjölmörg slys hafa orðið á veginum undanfarið og á síðustu tveimur vikum hafa þrír bílar ekið út af veginum, meðal annars vegna lélegra og erfiðra aðstæðna. Vegurinn er hættulegur, ef ekki einn sá hættulegasti á landinu. Foreldrar, systkini, ættingjar og vinir sitja heima með hjartað í buxunum þegar einhver náinn þeim ekur veginn í slæmri færð. Færðin þarf ekki einu sinni að vera slæm því hálkublettir myndast á ólíklegustu stöðum hans sem þýðir að óreyndur leikmaður á oft ekki séns þegar hann mætir veginum því hann veit ekki hvar hætturnar liggja og hvað hann á að varast. Grindvíkingar eru farnir að kannast við hverja holu, „leyndu“ hættustaðina, hvar sviptivindar myndast og hvar vegurinn hallar.

Öryggisúttekt var gerð á veginum og í kjölfar hennar var ákveðið að setja efni í fláa til að gera þá flatari og stór grjót fjarlægð, en þetta á að gera það öruggara ef keyrt er út af veginum. Í náinni framtíð á síðan hugsanlega að setja vegrið á einhvern kafla á veginum þar sem ekki hægt er að laga öryggissvæði.

Það hafa óteljandi plástrar verið settir á Grindavíkurveginn á síðustu áratugum sem eru bara plástrar, virka í nokkrar vikur, jafnvel daga, en síðan er plásturinn farinn af. Hvað þarf að gerast til þess að eitthvað verði gert til þess að tryggja öryggi vegfarenda á veginum? Þurfa fleiri mannslíf að glatast eða fleiri alvarleg slys að eiga sér stað?

Flestir ferðamenn sem koma til landsins keyra veginn þar sem hann liggur að Bláa Lóninu og þá tala ég ekki um allar rútuferðirnar sem fara í Lónið líka og allan  fiskútflutninginn frá Grindavík. Vegurinn er fjölfarinn og fleiri þúsund tonn ökutækja aka hann á hverjum degi með farþega innanborðs.
Vegurinn er um fjórtán kílómetrar frá Grindavík og að Reykjanesbraut og kostnaður við framkvæmdir yrði einhver. En mig langar að spyrja, hvers virði eru mannslíf?