Hver eru kosningamálin?

Það er óhætt að segja að þau séu óþrjótandi verkefnin sem stjórnmálamennirnir okkar fá að glíma við á næstunni. Þeir hafa verið að fá viðbrögð frá kjósendum og hér á Suðurnesjum er nokkuð ljóst að það eru heilbrigðismálin, húsnæðismálin og samgöngumálin sem skora hæst hjá fólki. Í fyrsta skipti í mörg ár eru atvinnumál ekki efst á listanum en þau voru í þremur efstu sætunum, er hægt að segja, fyrir alþingiskosningarnar fyrir þremur og hálfu ári síðan. Það er óhætt að segja að mikið vatn hafi runnið til sjávar síðan þá, sérstaklega í atvinnumálum svæðisins. Árið 2012 var ástandið verst í atvinnumálum á Suðurnesjum yfir allt landið. Nú er öldin önnur. Atvinnuleysi í sögulegu lágmarki og miðað við spár og þróun í ferðaþjónustunni er ljóst að það verður á brattann að sækja til að finna út úr því hvernig manna á öll störf sem munu bætast við hér á svæðinu á næstu árum og áratugum.

Sveitarfélögin fá að hluta til þetta verkefni inn á borð til sín. Árið 2030 er gert ráð fyrir því að um 35 þúsund manns búi á Suðurnesjum. Það liggur því fyrir að á næstu 15 árum þarf að byggja tíu leikskóla, fimm til sex grunnskóla og annan framhaldsskóla, svo fátt eitt sé nefnt. Á aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum var sveitarstjórnarmönnum kynnt skýrsla um gríðarlega fjölgun atvinnutækifæra á svæðinu í tenglsum við fjölgun ferðamanna. Þetta mun verða mikil áskorun fyrir sveitarfélögin sem þurfa að styrkja innviðina, byggja skólana, huga að samgöngum, heilbrigðismálum og fleiru sem tengist þjónustu við íbúana. Og auðvitað þarf ríkið að koma hér að málum með sveitarfélögum og fleiri aðilum. Nú reynir enn meira á samvinnu sveitarfélaganna á Suðurnesjum þegar kemur að framtíðarplönum. Fulltrúar þeirra rifust um sameiningarmál á aðalfundi SSS um síðustu helgi. Grindvíkingar, Sandgerðingar og Garðmenn vilja helst ekki ræða sameiningarmál og vísuðu frá tillögu fulltrúa Reykjanesbæjar, um að gera óháða úttekt á kostum og göllum sameiningar, hluta eða allra sveitarfélaganna. VF hefur alla tíð haft þá skoðun að vinna eigi áfram í sameiningarmálum sveitarfélaga á Suðurnesjum. Sameining Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna er gott dæmi um vel heppnaða sameiningu en hún var gerð árið 1994. Nú þegar verkefnin verða bara stærri hlýtur það að vera betra og auðveldara að klára mál þegar eitt stórt sveitarfélag fær málið inn á borð, en ekki þrjú eða fjögur. Svo ekki sé talað um hagræðingu og sparnað í rekstri en lang stærsti kostnaður sveitarfélaga er launakostnaður. (Sjá umfjöllun um sameiningarumræðu frá aðalfundi SSS um síðustu helgi annars staðar í blaðinu.)

Kjósendur á Suðurnesjum og í Suðurkjördæmi vilja úrbætur í samgöngu- og vegamálum og lang flestir vilja þeir sjá miklu meiri áherslu lagða á heilsugæsluna og heilbrigðismál. Í blaðinu er viðtal við hjúkrunarfræðing, ungan karlmann, sem segir að Suðurnesjamenn séu talsvert á eftir bæði Akureyri og Selfossi. Í viðtalinu kemur jafnframt fram að frá árinu 2007 hafi íbúum á Suðurnesjum fjölgað gríðarlega en að heilbrigðiskerfið hafi engan veginn náð að fylgja fjölguninni eftir. Hjúkrunarfræðingurinn á HSS segir ljóst að Suðurnesin séu fjársveltasta heilbrigðissvæði landsins. Nýleg íbúakönnun sem gerð var á Suðurnesjum sýnir að heilbrigðismálin eru meðal þeirra sem íbúar telja hvað brýnast að ráðast í úrbætur á.

Hvað samgöngumálin varðar þá komst Reykjanesbrautin ofar á framkvæmdalistann fyrir dugnað og  baráttu áhugahóps sem stofnaður var í sumar. Forsætisráðherra segir að barátta hópsins hafi haft mikil áhrif. Tvöföldun frá Fitjum að flugstöð er komin í samgönguáætlun og hringtorg verða gerð á næstu tveimur árum þangað til tvöföldun verður kláruð á þeim kafla. En betur má ef duga skal. Gjaldeyristekjur hafa tvöfaldast á síðustu fjórum árum vegna ferðamanna. Það þarf að mæta auknu álagi á vegum landsins með meiri innspýtingu í samgöngumál.