Hvar er tjaldsvæðið?

Ferðamannasumarið 2015 er í hámarki og veðurguðirnir hafa verið í góðu stuði síðustu vikurnar og þegar gert betur en þeir gerðu allt sumarið í fyrra, alla vega hér suðvestanlands. Nú er um að gera njóta blíðunnar og frísins.

Við Suðurnesjamenn þurfum ekki alltaf að leita langt yfir skammt því margar ferðamannaperlur eru á Reykjanesi. Garðskaginn er t.d. einn af þessum stöðum og hann naut sín vel á sólseturshátíð í Garðinum um þarsíðustu helgi.

Garðskaginn er alltaf að verða vinsælli og vinsælli ferðamannastaður og þar hefur þó nokkur uppbygging átt sér stað varðandi hinn sístækkandi ferðamannaiðnað. Garðskagavitinn hefur alltaf sitt aðdráttarafl sem og fjaran þar í kring. Þá hefur verið byggð upp glæsileg veitingaaðstaða á svæðinu. Garðurinn hefur einnig skapað sér ákveðna sérstöðu með því að rukka ekki fyrir aðgang að tjaldsvæði bæjarins á Garðskaganum,“ sagði Einar Jón Pálsson, forseti bæjarstjórnar Garðs í viðtali við Víkurfréttir.

Það er gott og vel og hljóðið í ferðaþjónustunni á Suðurnesjum er betra en nokkru sinni fyrr. Nokkuð ljóst er þó að enn vantar talsvert upp á samvinnu milli aðila. Vonandi verður bætt úr því. Varðandi aðstöðu fyrir ferðamenn hefur verið kvartað sáran yfir því að það vanti tjaldsvæði í stærsta bæjarfélaginu á Suðurnesjum, bítlabænum Reykjanesbæ. Sést hefur til ferðamanna tjalda hér og þar um bæinn og þá hafa verslunaraðilar í bænum verið spurðir hvað tjaldsvæðið í ósköpunum sé? Það er eiginlega með ólíkindum að það sé ekki búið að græja þetta mál miðað við allar þær framkvæmdir sem farið var í á síðustu árum. En það hlýtur að fara að koma. Varla getur svona stórt bæjarfélagið verið án tjaldsvæðis?