Hvað þarf til að klára brautina?

Það er oft erfitt að skilja forgangsröðun stjórnvalda og stjórnmálamanna. Manni verður hugsað til ummæla Ásmundar Friðrikssonar, alþingsmanns sem sagði í viðtali við Víkurfréttir í lok síðasta árs að þingmenn hefðu engin völd og það væri erfitt fyrir þá að koma málum áfram. Oft hefur maður fengið sömu tilfinningu og Ási.

Í frétt í blaðinu er viðtal við Vilhjálm Árnason, þingmann úr Grindavík um Reykjanesbrautina, og hann spurður út í seinkun á tvöföldun hennar. Hann situr í umhverfis- og samgöngunefnd og kappinn er jú í Sjálfstæðisflokknum sem er í meirihluta ríkisstjórnar. Vilhjálmur segir að marga samvinnandi þætti þurfi til að flýta framkvæmdum og nefnir í því sambandi að sveitarfélögin þurfi að auka samvinnu og hafa Isavia og Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar inni í því dæmi. Sveitarfélögin þurfi að þrýsta meira á málefni í vegagerð. Til dæmis hafi Reykjanesbær verið með fókus á hafnarmálum (Helguvík) og því hafi lítill þrýstingur komið þaðan á málefni Reykjanesbrautar. Sveitarfélögin eigi að sameinast um þrýsting á þá sem semja samgönguáætlun. Þannig náist betri árangur.

Ég verð að segja að mér finnst þetta frekar slappur málflutningur hjá þingmanninum unga sem sjálfur keyrir skemmdan Grindavíkurveg og Reykjanesbrautina í vinnu á hverjum degi. Ekki er annað hægt að lesa úr svari Vilhjálms en staðfestingu á orðum Ásmundar. Hann hafi lítið að segja í samöngunefndinni sem raðar framkvæmdum í röð. Nú er ljóst að ekkert fjármagn verður sett í Reykjanesbrautina næstu tvö árin. Það má vel vera að það séu til brýnni málefni, það er misjafnt hvað fólki finnst í þeim efnum en það slær mig samt hvernig þingmaðurinn svarar. Hann er í nefndinni og það eru sjö þingmenn frá Suðurnesjum með einn ráðherra í kjördæminu. Hefur það ekkert segja? Staðan hjá ríkisstjóði ekki verið betri í langan tíma. Svo er þetta ekki bara málefni Suðurnesjamanna. Ekki eru þeir einir á brautinni eða að einir að njóta góðs af aukningu í ferðaþjónustu.

Á aldamótaárinu 2000 fékk almenningur á Suðurnesjum nóg þegar mörg banaslys urðu á Reykjanesbraut og til að fá athygli og vonandi árangur í framhaldinu tók hópur fólks sig til og lokaði brautinni í smá tíma á kafla nærri Njarðvík. Það varð auðvitað allt vitlaust en engu að síður fóru hjólin að snúast í framhaldinu. Til varð áhugahópur um tvöföldun Reykjanesbrautarinnar sem hélt borgarafund og gaf þáverandi samgönguráðherra nýja skóflu sem hann átti að nota í fyrstu skóflustungu að tvöföldun brautarinnar, ekki seinna en mjög fljótlega. Hópurinn hélt ráðherra og fleirum við efnið eftir þúsund manna borgarafund og hjólin fóru að snúast. Þingmenn og fleiri höfðu talað um tvöföldun í mörg ár án nokkurs árangurs. Það gerðist ekkert í þessu máli fyrr en fólkið á svæðinu tók sig til og lamdi í borðið. Skóflan fór loft og tvöföldun milli Njarðvíkur og bæjarmarka Hafnarfjarðar lauk á næstu átta árum í tveimur áföngum og niðurstaðan er sú að ekkert banaslys hefur orðið á brautinni frá þeim tíma. Hluti af svörum Vegargerðarinnar í upphafi voru á þá leið að það væri ekki nægjanleg bílatraffík um brautina til að tvöfalda hana. Nú getur maður spurt sig í ljósi ótrúlegrar ferðamannaaukningar til landsins, hvernig væri staðan ef þessi tvöföldun hefði ekki orðið að veruleika? Það er óþarfi að leggja fram tölur því flestir vita að aukningin t.d. í bílaleigubílum er í þúsundum prósenta á áratug auk annarar traffíkur eins og langferðabíla sem flytja ferðamenn til og frá Keflavíkurflugvelli.

Það er áfram spáð metsumri í komu ferðamanna og í síðustu viku var harkalegt bílslys á Fitjum þar sem útlendingur keyrði á ofsahraða upp á hringtorg. Öryggi er eitthvað sem við verðum að huga að í þessu málum. Það eiga ekki að þurfa að verða banaslys á veginum til þess að farið verði í aðgerðir til að klára framkvæmdir á brautinni upp að flugstöð sem og hinum megin.

Ég segi bara: Koma svo!