Hvað ætla ég að kjósa?

Enn einu sinni göngum við til kosninga en nú eru það bæjar- og sveitarstjórnarmálin. Allmikil umræða hefur verið um mikil rólegheit í aðdragandanum. Það er vissulega hægt að taka undir það en spennan er engu að síður mikil í öllum bæjum á Suðurnesjum.

Í „höfuðborg“ Suðurnesja, Reykjanesbæ, eru nokkur mál sem hafa verið á oddinum, s.s. heilbrigðismálin og Helguvík að ógleymdum fjármálum bæjarins. Allir vilja betri þjónustu á HSS og flestum er sama þó svo starfsemi kísilvera verði ekki í víkinni góðu sem nú skartar hálfbyggðri álversbyggingu sem kostaði nærri 20 milljarða og svo eru nokkrir milljarðar horfnir út í veður og vind í kísilveri United Silicon, sem nú er stopp og óvíst hvort rekstur verði þar áfram. Það er vissulega skrýtið þegar allir voru sammála því að fá hingað álver sem myndi skaffa 400-500 vel launuð og störf og nokkur hundruð störf áttu líka að fylgja tveimur kísilverum, sem allir samþykktu líka. Þessar verksmiðjur áttu auðvitað líka að laga fjárhagsstöðu Reykjaneshafnar. Nú er öllum bæjarfulltrúum og bæjarbúum sama og vilja ekki meir. Enda hafa skapast mörg hundruð störf frá ferðaþjónustunni undanfarin ár og því er spáð að allt til ársins 2030 verði til nokkur hundruð störf árlega, eða um það bil jafn mörg og eitt álver átti að skaffa. Þannig að það er ekki að furða að öllum sé sama um mengandi stóriðju. En það skiptir máli að hafa fjölbreytni og hana þarf að auka og styrkja þó hún þurfi ekki að vera á sviði mengandi stóriðju. Það má ekki gleyma því. Hins vegar segja allar spár að ferðaþjónustan verði í algjöru burðarhlutverki í atvinnulífi Íslendinga á næstu misserum.

Núverandi meirihluti Reykjanesbæjar hefur verið bundinn í báða skó frá árinu 2014 í aðlögunaráætlun sem fékk nafnið „Sóknin“ sem er þannig lagað nauðvörn. Þannig hefur reksturinn verið en staðan hefur þó lagast mikið samfara mikilli fjölgun bæjarbúa og litlu sem engu atvinnuleysi. Framboðin átta eru enda ekki að tala um reksturinn og virðast vera sammála þeirri Sóknar-stefnu núverandi meirihluta sem nú leggur vinnu sína undir íbúana. Það verður án ef mikil spenna í loftinu á kjördag, næsta laugardag þegar fyrstu tölur koma. Engar kannanir hafa þegar þetta er skrifað, komið fram og því óvissa í loftinu. Kosningabaráttan hefur verið á góðum nótum, ólíkt því sem var síðast. Þá klofnaði Sjálfstæðisflokkurinn og það sem upp á vantaði í atkvæðum í niðurstöðunum 2014, til að halda meirihlutanum fjórða kjörtímabilið í röð, fór með klofningnum. Í framhaldinu varð til nýr meirihluti sem réð bæjarstjóra ekki úr röðum framboðanna. Flestir eru sammála um að hann hafi staðið sig vel og því nokkuð líklegt að hann verði beðinn um að sitja áfram.

Í tölublaði VF í þessari viku eru stutt viðtöl við oddvita framboða allra sveitarfélaga utan Reykjanesbæjar en þau voru í síðustu viku og þar er verið að berjast á öllum stöðum fyrir betri þjónustu í skólamálum, málefnum aldraðra og umhverfismálum.

Það eru stór tíðindi í Sandgerði og Garði þar sem kosið er í fyrsta sinn í sameinuðu sveitarfélagi. Nafnið hefur verið stærsta málið í þeim undirbúningi en hvort ný bæjarstjórn samþykki Heiðarbygg er ekki vitað því mikil óánægja virðist vera með það og þátttaka í nafnakosningunni lítil. Það verður hins vegar áhugavert að sjá hvernig nýtt sveitarfélag sem sumir telja með réttu hið eina og sanna Suðurnes. Enn aðrir benda á að nafnið á ekki að vera stórmál því það liggur í loftinu að nýja sameinaða sveitarfélagið mun sameinast öðrum á næstu árum.

Fleiri framboð eru í Grindavík en áður, sex talsins og berjast um sjö sæti bæjarfulltrúa. Sjálfstæðismenn og Grindavíkurlistinn skipa meirihlutann en nú má eiga von á harðari baráttu með fleiri framboðum. Þar vill fólk sjá betri þjónustu í leikskólamálum, málefnum aldraðra og fá ríkið til að gera nauðsynlegar vegabætur á Grindavíkurvegi, svo helstu málin séu nefnd.

Í Vogunum eru þrjú framboð en þar býr samkvæmt nýlegri könnun hamingjusamasta fólkið. Þar er framundan mikil íbúafjölgun en þar þarf líka að gera betur í að styrkja innviði til að mæta henni.

Svo er spurning hvað gerist nú þegar verulega fleiri eru komnir með kosningarétt en árið 2014. Hvernig verður kosningaþátttakan? Það mun skipta miklu máli. Alla vega endum við þennan pistil á því að hvetja fólk til að nýta sér þennan rétt. Kjósum!