Höll hljómanna, unglingarnir og svefninn

Um helgina opnar ný og stórglæsileg Hljómahöll í Reykjanesbæ. Höll hljómanna - en þar er vísað til fyrstu bítlahljómsveitar Íslands sem kom úr Keflavík. Miklu hefur verið til kostað til að gera þessa „frægðarhöll“ tónlistarinnar sem glæsilegasta og vel hefur til tekist. Kostnaður er um 2,3 milljarðar króna og hafa framkvæmdir staðið yfir í fimm ár. Í þessu mikla húsnæði sem er „gamli“ Stapinn auk viðbyggingar eru Tónlistarskóli Reykjanesbæjar með alla sína starfsemi og síðan Rokksafn Íslands. Í húsnæðinu eru nokkrir salir af ýmsum stærðum, hentugir til tónleika eða ráðstefnuhalds og tæknilega mjög vel búnir.

Það er nokkuð öruggt að Hljómahöllin mun draga að ferðamenn, bæði íslenska og erlenda. Hún mun líka efla tónlistarlíf bítlabæjarins sem og menningarstarf. Með Hljómahöllinni mun bítlabærinn standa enn frekar undir nafni og auka aðdráttarafl sitt til muna. Hér er ástæða til að fagna frábæru framtaki.

Svefnleysi unglinga

Það er áhugavert málþing í Reykjanesbæ um svefn unglinga. Þar er í raun verið að fjalla um svefnleysi unglinga sem er verulegt vandamál. Þeir þurfa meiri svefn. Kannast einhver við málið?

Hjálmar Árnason segir af tilraun í Bandaríkjunum með að byrja skóladaginn 25 mínútum seinna á morgnana og ber upp tillögu um að unglingadeildir á Reykjanesi og Fjölbrautaskóli Suðurnesja byrji skóladaginn kl. 9:00. Rannsóknir sýna að unglingar þurfa 8-9 tíma svefn og fæstir ná því. Þessi hugmynd er virkilega þess virði að skoða alvarlega. Þar sem þessu hefur verið breytt hefur það reynst vel. „Tillagan okkar sem stöndum að þessu málþingi að við eigum við að byrja unglingadeildir grunnskóla og fjölbrautaskóla kl. 9 til þess að gera okkar til þess að unglingarnir nái þessum nauðsynlega svefni,“ segir Hjálmar Árnason í viðtali í VF.