Hjólin farin að snúast - í rétta átt

Það er ljóst að hjólin á Suðurnesjum eru farin að snúast í rétta átt. Á undanförnum vikum höfum við verið með ansi margar fréttir sem segja frá jákvæðri þróun í atvinnumálum svæðinu. Nýjasta fréttin er um að mun færri einstaklingar hafi þegið fjárhagsaðstoð í mars núna miðað við marsmánuð í fyrra. Helguvík er að tikka inn og fyrstu umsóknir um nýjar byggingalóðir í Reykjanesbæ bárust nýlega. Það er sko saga til næsta bæjar og hafði bæjarstjóri orð á því á fundi bæjarstjórnar í vikunni.

Málefni Thorsil kísilversins var mál málanna á fundi bæjarstjórnar en nærri 300 athugasemdir bárust við deiliskipulagsbreytingu fyrirtækisins í Helguvík. Langflestar athugasemdirnar voru vegna hugsanlegrar mengunar og áhrifa vegna hennar. Eins og komið var inn á í leiðara í síðustu viku hafa vissulega margir áhyggjur af mengun frá Helguvík. Fram kom á bæjarstjórnarfundinum að svör voru við nánast öllum þessum áhyggjum varðandi mengunina. Umhverfisstofnun hefur sagt að hún sé alls staðar innan marka. Nú mun Umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar afgreiða málið frá sér á aukafundi 27. maí en til hans var stofnað vegna þess að meirihluti ráðsins taldi nauðsynlegt að skoða málið betur og frestaði afgreiðslu þess á síðasta fundi. Bæjarfulltrúar meirihluta bæjarstjórnar vörðu þessa ákvörðun ráðsins en minnihluti sjálfstæðismanna var á móti frestun og töldu mikilvægt að ljúka málinu. Miðað við umræðurnar á fundi bæjarstjórnar virðist ekki liggja neitt annað í loftinu en að málið fái jákvæða afgreiðslu og Thorsil geti haldið áfram að klára uppbyggingu kísilvers. Allir oddvitar meirihluta bæjarstjórnar töluðu þannig og sögðust allir vilja meiri atvinnuuppbyggingu.

Í viðtali við Kjartan Eiríksson, framkvæmdastjóra Kadeco, Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, í þætti vikunnar hjá Sjónvarpi Víkurfrétta, segir hann að uppbygging samfélags á Ásbrú, gamla varnarsvæðinu, hafi haft mjög jákvæð áhrif á atvinnulífið á Suðurnesjum, ekki síst fljótlega eftir kreppu og muni hafa mikil og góð áhrif í framtíðinni.

Það hafa margir hjálpast að við að ýta Suðurnesjunum í gang eftir fallið í bankahruninu. Það er jákvætt og vonandi náum við að vinna úr þeim tækifærum sem hafa skapast á góðan hátt til framtíðar litið.