Hitnar í kolunum í Helguvík

Það var áhrifaríkt að heyra í sjónvarpsþætti Stöðvar 2, Um land allt, að tilkoma álvers á Reyðarfirði hafi haft miklu meiri áhrif en aðilar í þéttbýlinu suðvestan lands, geri sér grein fyrir. Þetta eru ekki nýjar fréttir fyrir okkur Suðurnesjamenn og hér í forystugreinum hefur margsinnis verið sagt frá víðtækum áhrifum sem álver og önnur stærri starfsemi í Helguvík myndi hafa á atvinnulífið á svæðinu.

Svo virðist sem starfsemi í Helguvík sé smám saman að fara í gang en í vikunni var undirritaður samningur um gerð jarðstrengs frá Fitjum til Helguvíkur. Landsnet hefur gert samning við United Silicon um flutning raforku til kísilvers fyrirtækisins sem áformað er að reisa í Helguvík og er stefnt að því að tengingin verði komin í gagnið fyrir 1. febrúar 2016. Aðstoðarforstjóri Landsnets segir að hin mikla uppbygging sem nú eigi sér stað á Reykjanesi, s.s. með uppbyggingu kísilvera, netþjónabúa og í líftækniiðnaði, kalli enn frekar á að fyrirhuguðum framkvæmdum við Suðurnesjalínu 2 verði hraðað.


Í þessu tölublaði Víkurfrétta og einnig í síðustu viku fengum við viðbrögð þingmanna Suðurnesja við þingsályktunartillögu Oddnýjar Harðardóttur um eflingu atvinnulífs á Suðurnesjum en hún leggur til stofnun starfshóps er takið málið fyrir. Meirihlutaþingmenn sögðu ekki þörf á enn einni nefndinni, betri árangri væri hægt að ná t.d. í gegnum ráðherrana. Oddný, fyrrverandi fjármálaráðherra, segir að staðan í álversmálinu hafi ekkert með ríkisstjórnir, núverandi eða fyrrverandi að gera. Hún er t.d. hissa á því að núverandi ríkisstjórn sé ekki búinn að leggja til ríkisstyrk til Helguvíkur, eins og gert var við Bakka á Húsavík  því búið væri að eyða fyrirvörum sem komu í veg fyrir að hægt var að klára málið í fyrri ríkisstjórn, að hennar sögn. Þá gagnrýnir hún þá hugmynd sjálfstæðismanna að „ýta á Landsvirkjun“ og að orka til ávers sé hér niðurgreidd af almenningi. Það má staldra við þá gagnrýni fyrrverandi fjármálaráðherra úr Garðinum. Eru svona ívilnanir eða styrkir réttlætanlegir? Í vikunni var gengið frá um 770 millj. kr. styrk til kísilmálmverksmiðjunnar Thorsils í Helguvík og sambærilegur samningur er einnig við United Silicon, hitt kísilfyrirtækið. Þar gaf ríkið eftir um 360 millj. og Reykjanesbær um 400 millj.kr. Þá geti Thorsil átt rétt á þjálfunaraðstoð frá ríkinu árið 2016 að upphæð 360 millj. kr. Þetta eru afslættir sem reiknast til þrettán ára rekstrartíma verksmiðjunnar. Þetta er vissulega góð hjálparhönd en eigum við ekki að gefa okkur það að sérfræðingar ríkis og Reykjanesbæjar hafi reiknað það út að svona aðstoð skili sér margfalt til baka til sveitarfélagins og svæðisins í heild á margvíslegan máta? Með fleiri störfum, beinum og afleiddum og miklum tekjum inn í samfélagið.

Nú þegar Helguvíkin er að „hitna“ og fleiri aðilar í startholunum að hefja þar starfsemi er ljóst að hagur Reykjaneshafnar, sem svo skuldsett er, fer að vænkast. Má þá ekki líka áætla að það borgi sig fyrir aðila sem eru í eigu ríkisins eins og Landsvirkun, að þeir hjálpi til við að ýta álveri í gang. Þó það sé á „kostnað“ almennings með „niðurgreiðslu“ rafmagns. Er það ekki nokkuð ljóst að slík fjárfesting skilar sér margfalt til baka þegar sú staðreynd blasir við að svona fyrirtæki skaffar mörg hundruð störf beint og óbeint í gegnum viðskipti við mjög mörg fyrirtæki sem það kaupir þjónustu af? Álverið á Grundartanga kaupir þjónustu á hverju ári af hundruðum fyrirtækja fyrir 10 milljarða á ári. Í álverinu starfa um 600 manns og um eitt þúsund manns til viðbótar hafa atvinnu af þjónustu sem tengist starfsemi þess. Fyrirtækið hefur verið lang stærsti vinnuveitandi á Vesturlandi í 17 ár.

Svo getur maður verið eins og Ragnar nokkur Reykás sem margir þekkja úr hinum fræga sjónvarpsþætti Spaugstofunni og farið í annan gír þegar hugað er að mengunarþættinum á Helguvíkursvæðinu. Er hætta á því að mengun með svo margar verksmiðjur eins og álver og tvö kísilver á sama svæði, verði of mikil. Eða þurfum við kannski ekki að hafa áhyggjur af því hér á vindasama Reykjanesi?

Páll Ketilsson ritstjóri.