Herra Burns í Helguvík

Stóriðjan í Helguvík hefur verið mál málanna undanfarnar vikur, ekki síst eftir að íbúar Reykjanesbæjar fóru að finna fyrir sterkri lykt frá kísilveri United Silicon sem tók til starfa fyrir nokkrum vikum. Skiljanlega er fólk ekki sátt við stöðuna og orðið langþreytt á ástandinu sem sagt er tengjast byrjunarörðugleikum. Það er vonandi að þeir verði úr sögunni sem fyrst.

Ýmsir hafa gantast með ástandið og að bæjarfélagið minni helst á Springfield, heimabæ Simpson fjölskyldunnar í samnefndum sjónvarpsþáttum. Þar sem mengandi verksmiðja, rekin af herra Burns, er nálægt byggðinni. Á þeim dögum þegar mengunin er sem verst kemst ég ekki hjá því að ímynda mér herra Burns í Helguvík, í jakkafötunum sínum að tipla fingurgómunum saman og Homer sjálfan við stjórnvölinn á tækjum verksmiðjunnar.

Í síðustu viku bárust svo loks fréttir af álveri Norðuráls í Helguvík sem kúrt hefur þar eitt og yfirgefið í nokkur ár. Þær voru þess efnis að mjög ólíklegt sé að álverið taki nokkurn tíma til starfa þar sem það hefur ekki raforku til álframleiðslu. Grænmetisbóndi í Reykjavík, Stefán Karl Stefánsson, sem líklega er þekktastur fyrir að leika Glanna glæp í Latabæ, lýsti því samdægurs yfir á Facebook-síðu sinni að hann vilji stofna stóra grænmetisframleiðslu í byggingum álversins sem standa auðar. Það skemmtilega er að Stefán er ekkert að grínast með þessa hugmynd. Hann hefur lengi stefnt að því að framleiða grænmeti fyrir innlendan og alþjóðalegan markað og vill hafa framleiðsluna sem næst Keflavíkurflugvelli. Á samfélagsmiðlum hefur verið nefnt að líklega sé ekki leyfilegt að framleiða matvæli á þynningarsvæði eins og því sem er í kringum stóriðjuna í Helguvík. Mig langar því til að nýta tækifærið og hvetja forsvarsfólk sveitarfélaganna á Suðurnesjum til að setja sig í samband við Stefán lumi það á hentugum lóðum undir risavaxna grænmetisframleiðslu. Þar sem ég ólst upp í Sandgerði sé ég fyrir mér að gamla Rockwille svæðið gæti verið alveg prýðilegt enda jafnvel enn styttra þaðan á flugvöllinn en frá Helguvík. Hvernig sem á málið er horft eru allar líkur á því að meiri sátt verði um stórtæka grænmetisræktun á Suðurnesjum en um stóriðju. Þó svo að þættirnir um Simpson fjölskylduna séu stór skemmtilegir vill enginn að bærinn sinn breytist í Springfield. Þá er Latibær miklu betri.