Helguvíkurmengun og íbúakosning

Það er óhætt að segja að fréttirnar úr Helguvík hafi verið fjölbreyttar að undanförnu og þessi staður sé búinn að vera í eldlínu umræðunnar. Kísilverið Thorsil sem íbúakosning stendur um gaf það út í auglýsingu í Víkurfréttum að meðallaun yrðu um 600 þús. kr. og lofar því að starfa í sátt við íbúa og umhverfi á Reykjanesi um ókomna tíð. Þar segir einnig að fyrirtækið hafi valið Reykjanesbæ vegna jákvæðra viðhorfa bæjaryfirvalda, traustra innviða á svæðinu, aðgangs að hæfu vinnuafli og vel staðsettrar hafnarlóðar fyrir starfsemi sína. Íbúakosningu um málefni Thorsils lýkur 4. des. en þátttaka í rafrænu kosningunni er afar lítil. Þegar tveir dagar voru eftir af henni höfðu aðeins um 600 manns farið á netið og tekið þátt eða um 6% íbúa en um 10 þúsund manns eru á kjörskrá í Reykjanesbæ. Bæjarstjórinn í Reykjanesbæ vekur athygli á þessu í pistli í vikunni, segir kjörsókn óheppilega dræma og að það skjóti skökku við að af þeim 2800 manns sem rituðu nafn sitt á undirskriftalistana, þar sem kosningar var krafist, skuli aðeins 600 af þeim hafa tekið þátt.

Fyrir þessa kosningu var ljóst að hún myndi engin áhrif á fyrirætlanir bæjaryfirvalda sem hafa alltaf sagt að hún yrði aldrei meira en ráðgefandi og í raun marklaus því ákveðið hafi verið að breyta ekki neinu í ferlinu varðandi kísilver Thorsil. Því hafa margir furðað sig á þessum látum og veseni mótmælenda. Hitt er svo annað að hópurinn hefur vakið athygli á mengunarþættinum sem hann telur að sé ekki að fullu skýr þó svo Umhverfisstofnun hafi gefið grænt ljós. Það hafi ekki verið nógu grænt. Í nýrri frétt okkar í Víkurfréttum kemur fram að kísilverin bæði í Helguvík skipuleggi sjálf mengunarmælingarnar og velji eftirlitsaðila sem reyndar Umhverfisstofnun þarf að samþykkja. Einhverjum kann að þykja þetta full frjálslegt og í frétt VF er viðtal við bónda í Hvalfirði sem lýsir reynslu sinni af mengunarmálum þar vegna nærveru við álver. Bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ hafa farið fram á það að vera virkur aðili í eftirliti á vöktuninni og þau (ásamt Umhverfisstofnun og kísilverunum) verða með fulltrúa í samráðshóp þar sem farið verður yfir niðurstöður mælinga.

Hvernig sem því líður þá er það ljóst að þetta mál þarf að að vera á hreinu og nokkuð víst, að jafnvel hörðustu fylgjendur starfseminnar í Helguvík vilja að þessi þáttur verði í fullkomnu lagi og að engu verði til slakað í þeim efnum.