Heilsueflandi samvera

Margir hafa leitað í útiveru undanfarið þegar sólin fór loksins að skína skært á heiðskírum himninum. Lóur hafa óvænt gert sig heimakomnar í görðum fólks, mörgum til mikillar gleði. Það hlýtur að vera auðveldara að fá sumar í hjartað þegar vorboðinn ljúfi, sem venjulega hefur haldið sig í móum og á melum, er kominn svona nálægt byggðum mannfólksins. Enda eiga langflestar skepnur að geta lifað saman í ró og spekt og notið samverunnar. 

Heilu fjölskyldurnar hafa einnig hópast saman í útileiki að undanförnu. Samvera foreldra og barna úti er mögulega mikilvægari en inni því súrefnið og hreyfingin gera öllum svo gott, fyrir líkama og sál. Slíkt ætti í raun að vera sjálfsagðari og reglulegri þáttur í heilbrigðu fjölskyldulífi. 

Atli Freyr Demantur hefur að undanförnu vakið mikla athygli fyrir framgöngu sína í nýjasta myndbandi Of Monsters and Men, I Of the Storm. Hann var fyrsta fórsturbarn Karenar Jónsdóttur og Vilhjálms Einarssonari sem voru til umfjöllunar í síðasta tölublaði Víkurfrétta. Í viðtali í nýjustu Víkurfréttum segir Atli Freyr að mikilvægast hafi einmitt verið að fá að upplifa heilbrigt heimilislíf. 

Heilbrigt heimilislíf einkennist m.a. af samskiptum þar sem virðing, kærleikur, gagmkvæmur skilningur og tillitssemi ríkja. Við getum kallað það jafnvægi. Ef fjölskyldur venja sig á þannig samskipti smitast þau eðlilega til vinnustaða eða annarra viðverustaða foreldranna og í skólana og frístundirnar hjá börnunum. 

Samskipti og hreyfing sameinast í vinaliðaverkefni sem virkjuð hafa verið í sumum grunnskólum á Suðurnesjum. Þau ganga út á að hvetja nemendur til meiri þátttöku í leikjum og afþreyingu í frímínútum og skapa betri skólaanda. Aðal markmiðið með þessu verkefni er að bjóða öllum nemendum skólans fjölbreyttara úrval afþreyingar í frímínútum, þannig að nemendur skólans finni eitthvað við sitt hæfi. Allir nemendur skólans hlakki til að mæta í skólann sinn, alla daga.


Barnahátíð í Reykjanesbæ var um helgina þar sem þátttakendur eru allir 10 leikskólarnir, sex grunnskólar og Fjölbrautaskóli Suðurnesja. Allir eru með og markmið hátíðarinnar er m.a. að skapa vettvang fyrir fjölskyldur til notalegrar samvinnu þeim að kostnaðarlausu.