Heilsan, kirkjan og Kaninn

Konráð Lúðvíksson fyrrverandi lækningaforstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja segir í afar áhugaverðri grein í blaðinu að tengsl stofnunarinnar við kirkjuna séu afar mikilvæg og sterk en pistilinn skrifar hann í tilefni 100 ára afmæli Keflavíkurkirkju sem hann tengist líka. Nokkrir punktar sem læknirinn skrifar um og tengjast veru Varnarliðsins vekja mikla athygli.

„Sameiginlegur starfsvettvangur starfsfólks kirkjunnar og heilbrigðisstofnanna er í dag fremur á hinu andlega sviði en því líkamlega oftast þá þegar tekist er á við andleg áföll, bæði þau sem skyndilega birtast en einnig þau sem fyrirséð verða. Markmiðið er enn að lina þjáningu og bæta lífsgæði. Kirkjunnar fólk er kallað til þegar orð og nánd við trúna sem í öllum býr að einhverju leyti vegur meira en þau verk sem heilbrigðisstarfsfólk fram að þessu samviskusamlega hefur unnið. Umhverfið þarfnast nú líknar með þeim tækjum sem betur fara í höndum starfsfólks kirkjunnar,“ skrifar læknirinn sem flutti með fjölskyldu sinni til Keflavíkur fyrir um þrjátíu árum síðan.

Hann fjallar um þessi andlegu tengsl og segir sambandið hafi verið óvenju sterkt og styrkst mikið með tilkomu Sr. Ólafs Odds Jónssonar heitins sem kom að samstarfinu við hann og hans fólk á HSS. Ljóst er að þeir félagar hafa unnið brautryðjendastarf í mörgu sem tengist andlega þættinum sem áður fyrr var ekki sinnt. Menn hörkuðu bara af sér eftir áföll. Það var alla vega viðhorfið. Sem betur fer er nú tekið öðruvísi á svona málum sem oft eru mjög erfið fyrir fólk.

En læknirinn fjallar síðan um efnishyggju á svæðinu sem hann telur hafa tengst veru varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli með margvíslegum áhrifum. Orðrétt segir hann: „Suðurnesin voru á þeim tíma um margt sérstakt samfélag sem lutu áhrifa  frá herstöðinni á Háaleiti, bæði menningarlega, efnahaglega og félagslega. Efnishyggja var hér rík, fólk hafði flust alls staðar af landinu til að bjarga sér í skjóli herstöðvarinnar, þar sem fólki voru greidd hærri laun en almenn gerðist annarsstaðar. Hvati til menntunar var því lítill á meðan fólk gat sótt vel launuð störf þangað. Það þóttu einkenni þessa samfélags að hvers kyns nýungar birtust hér fyrr en annars staðar, ímyndaðar þarfir meiri, bílar stærri, jólaljósin skærari, gjarnan öll blikkandi, sum sé glimrandi velmegun.“

Bakvið þessa sérstöku glansmynd hafi þó verið önnur mynd sem birtist m.a. í takmarkaðri biðlund, stuttum spuna og háværu gelti. Mannleg áföll voru áberandi og vofeiflegir atburðir tíðir, m.a. sú ótrúlega staðreynd að fósturlát hafi verið óvenju tíð og fáséðir vanskapnaðir fóstra og barna sem fæddust með þá af þeirri stærðargráðu að hlaut að þurfa að vekja athygli á. Konráð segir að fúlu yfirborðsvatni hafi verið kennt um, menguðu af starfsemi herflugvallar. Eftir að ný vatnsveita hafi verið lögð hafi aldrei borið á þessu.


Sem íbúi hér á svæðinu í fimmtíu ár, hafandi upplifað ýmislegt tengt flugvellinum þá slær þetta mann. Iðulega hefur komið upp umræða um heilbrigði vatnsins og eins um tíð einkenni krabbameins hjá íbúum og nærveru hervallar þar einnig kennt um. Ljóst er að læknirinn sem flutti til Keflavíkur fyrir 30 árum upplifði ýmislegt sem fólk sem hafði búið þar gerði sér ekki grein fyrir eða var orðið samdauna. Langflestir hafa horft með mjög jákvæðum augum á veru Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli í þau tæplegu sextíu ár sem það var hér á Suðurnesjum. Mikil og vel launuð vinna og viðskipti við nærsamfélagið. Bæjarbúar í nágrenni hervallarins hafa sjaldan rætt eða ritað um neikvæðar hliðar sem birtust í samfélaginu vegna samneytisins við Kanann. Brottflutningur hans frá Keflavík gerði það að verkum að fjölbreytt háskólasamfélag varð til þar á Vellinum. Við fáum jákvæðar fréttir þaðan og menntunarstigið er einn af þeim þáttum sem smám saman er að styrkjast. Ýmisleg önnur áhrif sem við erum ekki ánægð með skulu vera okkur til varnaðar. Í þessu sambandi er kannski ekki úr vegi að huga að mengun frá risaverksmiðjum í Helguvík. Kannski er það eitthvað sem við ættum að skoða betur. Vinnan er okkur mikilvæg en heilsan líka.

Páll Ketilsson, ritstjóri.