Hátíð heimamanna og nýbúarnir okkar

Enn eitt sumarið er á lokametrunum og þrátt fyrir rysjótta tíð langt fram í júlí þá hafa veðurguðirnir sýnt okkur sem búum á sunnanverðu landinu lit á síðustu vikum og ágústmánuður er kominn með fleiri sólardaga en maí, júní og júlí. Í þessari viku ganga íbúar Reykjanesbæjar inn í Ljósanótt, síðustu bæjarhátíð ársins. Þar er dagskrá fjölbreytt að venju eins og sjá má í stóru blaði okkar.

Það sem einkennir Ljósanæturhátíðina og hefur tekist afar vel á undanförnum árum er þátttaka heimamanna í hátíðinni. Ótrúleg fjölbreytni einkennir dagskrána sem hefst með setningu á miðvikudegi og lýkur með menningardagskrá í Höfnum á sunnudegi, að ógleymdri sýningu Bliks í auga. Sá sem þetta ritar var í dómnefnd ljósmyndasýningarinnar „Eitt ár á Suðurnesjum“ en þar sendi fjöldi fólks myndir en þemað var „daglegt líf og náttúran á Suðurnesjum“. Margar skemmtilegar myndir bárust og afraksturinn er sýndur á aðalsýningu Ljósanætur í listasal bæjarins í Duus Safnahúsum. Þessi sýning er aðeins einn liður af mörgum á Ljósanótt. Heimatónleikar sem hófust fyrir nokkrum árum eru orðnir að einum vinsælasta viðburðinum en þeir verða á sjö heimilum að þessu sinni og allir miðar á tónleikana seldust upp. Gamlir bílar fá aftur sinn sess á Ljósanótt en Fornbílaklúbbur Íslands náði samkomulagi við lögreglustjórann og er það vel. Það er auðvelt að tína upp atburði en ljóst er að af nægu er að taka. Á næsta ári fagnar hátíðin tvítugsafmæli og það verður eflaust eitthvað. Eitt af markmiðunum fyrir næsta ár verður að virkja nýbúana okkar, útlendingana sem hafa flutt til Suðurnesja. Það þarf að virkja betur þann stóra hóp utan atvinnulífsins þar sem þeir eru duglegir en hafa ekki verið eins duglegir að sækja viðburði, menningu eða íþróttir. Það er ljóst að þetta fólk er meira og minna komið til að vera hér á svæðinu og því mikilvægt að hvetja það til fleiri verka en bara að mæta til vinnu. Í blaði vikunnar erum við einmitt með viðtöl við þrjá aðila sem allir eru sestir að á Suðurnesjum. Þeir bera Íslendingum vel söguna og eru mjög ánægðir með dvöl sína hér. Það er gaman að lesa viðtölin við þetta fólk sem Marta Eiríksdóttir tók fyrir okkur.

Óvissufréttir hafa verið af flugfélögunum Icelandair og Wow air. Vonandi ganga þau mál vel því það er gríðarlega mikið undir í ferðaþjónustunni á Íslandi og á Suðurnesjum að það fari vel. Aukningin í ferðaþjónustunni má að lang mestu leyti rekja til framgang þessara félaga í loftinu þó svo að önnur félög séu að sinna flugi til Keflavíkur. Í þessu sambandi má nefna að nýlega skrifaði Isavia undir rammasamning við tólf verkfræði- og arkitektastofur, bæði innlendar og erlendrar, um hönnun og ráðgjöf fyrir verklegar framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli sem hefjast munu á næstu mánuðum. Miðað við þessi tíðindi er ekki að sjá neinar alvarlega blikur á lofti. Gangi áætlanir eftir munu byggingar í fyrsta áfanga framkvæmdanna verða teknar í notkun í áföngum á árunum 2019 til 2021. Þessar framkvæmdir munu styrkja atvinnulífið á Suðurnesjum og verða mannaflsfrekar.

Páll Ketilsson
ritstjóri