Hættum að röfla

Olga Björt Þórðardóttir skrifar.

Þegar ég hugsa til æskuáranna í Njarðvík man ég vel eftir öllum útileikjunum sem stórir hópar af krökkum í hverfinu, á ýmsum aldri, sameinuðust í. Við hlupum rjóð í kinnum, freknótt og sæl á svip á milli túna, göngustíga og garða, klifruðum yfir girðingar og jafnvel upp á húsþök í feluleikjum, gjörsamlega þindarlaus. Allar stelpur áttu brennibolta, teygjur, snúsnú-band og krítar til að búa til parís. Maður skaust bara heim til að nærast, fara á salernið og hlýja sér þegar kalt var. Svo rauk maður út aftur. 
 
Aðsend grein Reykjanesbæingsins Guðmundar Stefáns Gunnarssonar, Klukk, þú ert´ann!, sem birt var í síðasta tölublaði Víkurfrétta, hefur vakið feikna athygli og viðbrögð. Í greininni talar Guðmundur um hvernig tímarnir hafa breyst með minni áherslu á útiveru og hreyfingu og að aukist hafi að börn alist upp við tæknitól og að það sé alltaf of vont veður til að vera úti. Hann vill hvetja fólk og virkja til að láta gott af sér leiða í þessum málum, t.d. með því að skipuleggja reglulega eða óreglulega viðburði sem fjölskyldur geta gert saman. 
 
Guðmundur segist hafa fulla trú á að fólk sé tilbúið í svona sjálfboðavinnu sem um leið sé frábær leið til að eignast vini, styrkja félagsleg tengsl og fá tækifæri til að láta gott af sér leiða að ógleymdri skemmtuninni og gleðinni sem af slíku hlýst. Í samtali við Víkurfréttir segist hann hafa fengið góð viðbrögð við greininni og t.a.m. sé fjölskyldufólk strax farið að skipuleggja leiki við skóla og að grilla og gera eitthvað saman á Jónsmessunni. 
 
Þetta gæti vel orðið byrjunin á einhverju verulega skemmtilegu og samtakamætti fólks eru engin takmörk sett. Ég vil því heils hugar taka undir orð Guðmundar í lok viðtalsins: „Hættum að röfla um hvað allt er dýrt og gerum það sem við getum gert til að búa til betra samfélag fyrir krakkana okkar.“