Góðir karlar og góðar konur

Víkurfréttir hafa lagt sig fram við að leita að mörgu jákvæðu sem er í gangi og að gerast á Suðurnesjum. Við höfum líka gagnrýnt þó við gerum minna af því og fjallað um hluti sem fólk hefur skoðanir á, eins og til dæmis nýlega þegar við fjölluðum um hvaða áhrif verksmiðjur í Helguvík hafa á umhverfið, útlitslega séð. Fólk hefur misjafnar skoðanir á því.

En að þessu jákvæða. Það er gaman þegar einstaklingar sem hafa gert marga skemmtilega hluti í samfélaginu fá viðurkenningu. Arnór B. Vilbergsson, organisti í Keflavíkurkirkju, kórstjóri og tónlistarstjóri margra tónlistarverkefna undanfarin ár, fékk Súluna, menningarverðlaun Reykjanesbæjar. Okkur á Víkurfréttum þótti þetta afskaplega vel valið hjá menningarvitum bæjarins því Arnór er mikill snillingur og það var mikill fengur þegar organistinn kom aftur í gamla heimabæinn sinn eftir að hafa lært í menningarbænum Akureyri. Í blaði vikunnar og sjónvarpsþætti vikunnar er rætt við Arnór og hann lýsir aðeins sinni sýn á ýmislegt sem hann er að gera. Margt er mjög forvitnilegt. Til dæmis þegar hann útskýrir hvernig menning verður til: „Það er alltaf mikið að gera og það er svo gaman að skapa. Það er alltaf gaman að búa til og þannig verður þessi blessaða menning til, þegar einhver skapar eitthvað og býr til og einhver nennir að koma að horfa á eða hlusta á. Það er nú bara það sem þetta snýst um.“

Það er viðtal í blaðinu við annan mjög áhugaverðan einstakling á Suðurnesjum. Hann er ekki eins áberandi í mannlífinu og organistinn en skilar talsverðu til samfélagsins á sinn hátt. Þetta er hann Sigurður Wíum Árnason. Hann gerði sér lítið fyrir og gaf Krabbameinsfélagi Suðurnesja tvær milljónir króna. Árið 2010 gaf hann Heilbrigðisstofnun Suðurnesja sömu upphæð. Þetta er frekar fátítt meðal einstaklinga úti í bæ og þess vegna mjög athyglisvert og auðvitað frábært framtak hjá gamla manninum.

„Ég hugsaði með mér að ef ég hefði efni á þessu þá ætti ég bara að gera þetta. Mér líður mikið betur núna en fyrir viku síðan,“ segir hann meðal annars í viðtalinu en Sigurður hefur misst bæði eiginkonu og son eftir glímu við krabbamein.

Þeir Sigurður og Arnór eru bara tvö lítil dæmi um það sem Víkurfréttir fjalla um á degi hverjum á veraldarvefnum, í blaði eða í sjónvarpi. Við sögðum til dæmis í síðustu viku frá Lionessum í Keflavík, sem selja konfektkransa fyrir jólin. Þær hafa undanfarin ár gefið stórar peningaupphæðir til líknarmála. Svona eru mörg dæmi sem hægt er að benda á. Skemmtileg dæmi um samfélagslega ábyrgð.

Nú eru smá breytingar í Sjónvarpi Víkurfrétta en frá og með þessari viku sýnum við vikulegan þátt okkar, Suðurnesjamagasín, á sjónvarpsstöðinni Hringbraut en við höfum verið á ÍNN síðustu fjögur ár. Við þiggjum allar góðar ábendingar um efni í okkar miðla, hvort sem það er um Sigga eða Arnór eða Jónu eða Gunnu. Endilega látið okkur vita hvað Suðurnesjamenn eru að gera góða og skemmtilega hluti!