Góðir gestir

Stærsta ferðasumar í sögu landsins er vel á veg komið og mannlíf og atvinnulíf ber keim af því, hér á Suðurnesjum sem og um allt land. Á sama tíma og ferðamenn streyma til landsins og lenda á Keflavíkurflugvelli og styrkja með því stoðir atvinnulífs á Suðurnesjum og auðvitað landinu öllu, eru nokkrir tugir smábáta við makrílveiðar við Keflavík. Það má segja að bæði ferðamenn og makríll eigi það sammerkt að hafa aukið komur sínar til Íslands á síðustu árum. Þetta hafa verið og eru góðir gestir.

Það er svo stutt síðan að það vantaði mörg störf á Suðurnesjum. Núna vantar fólk í flugstöðina og flugtengd störf og það vantar líka fólk í makrílvinnu. Ritstjóri hitti hana Þórunni Kolbrúnu, 14 ára stúlku úr Reykjanesbæ, á bryggjunni í Keflavík í vikunni. Hún var kölluð í aukavinnu í makríllöndun og stóð vaktina með föður sínum Árna Grétari, lyftaramanni. Það hefur verið mikil makrílveiði undanfarið þó verðið sé lágt. „Þeir hljóta að kaupa þessir andskotar þegar verðið er svona lágt,“ sagði eigandi tveggja báta á bryggjunni við fréttamanninn. Verðið er nærri helmingi lægra en það var þegar það var hæst.

Verðið í ferðaþjónustunni hefur hins vegar ekki lækkað og í vikunni var umræða um græðgi landsins í hótel- og gistiplássi. Fréttamenn VF heimsóttu nokkrar bílaleigur við Keflavíkurflugvöll og tóku púlsinn á stöðu mála. Bílaleigubransinn er orðinn risastór á Suðurnesjum og vegna hans hafa orðið til gríðarlega mörg störf á svæðinu. Tvær stærstu bílaleigurnar sem eru í eigu heimamanna eru með samanlagt nærri því tvö þúsund bíla og þyrftu að vera fleiri. Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með þessum vexti og við ræðum við nokkra aðila í greininni í þætti vikunnar í Sjónvarpi VF og gerum þessu efni líka mjög góð skil í blaði vikunnar.

Það styttist í eina stærstu bæjarhátíð landsins, Ljósanótt og undirbúningur er á fullu. Vogamenn héldu Fjölskyldudaga um síðustu helgi og um aðra helgi verða Sandgerðingar í stuði. Fyrr í sumar héldu Garðmenn Sólseturshátíð. Bæjarhátíðir sameina fjör, fróðleik og frændskap og eru orðnar ómissandi í mannlífi okkar.