Góðar sögur af Suðurnesjum

„Við höfum góða sögu að segja,“ er yfirskrift auglýsinga- og ímyndarherferðar um Reykjanes sem er að hefjast. Eftir könnun um viðhorf Íslendinga til svæðisins var ákveðið að fylgja því eftir með markaðsherferð og rétta af ímyndarhalla á Reykjanesi en landssvæðið var lægst í könnuninni.

Auglýsinga- og markaðsmenn frá fyrirtækinu HN markaðssamskiptum munu stýra þessu starfi fyrir Markaðsstofu Reykjaness í samvinnu við sveitarfélögin á Suðurnesjum og SAR, Samtök atvinnurekenda á Reykjanesi. Í fyrrnefndri könnun sem við höfum reyndar fjallað um hér í miðlum VF áður, kemur meðal annars fram að fáir höfðu áhuga á að starfa á Reykjanesi og um sjö af hverjum tíu sögðu það ekki koma til greina að búa á svæðinu. Meðal neikvæðra þátta sem nefndir voru um svæðið voru atvinnuleysi, félagsleg vandamál og vont veður. Þetta var könnun sem var gerð í nóvember síðastliðnum. Ekki beint skemmtilegar niðurstöður og ekki alveg það sem við heimamenn sjáum og upplifum. Við upplifum nefnilega hækkun húsnæðisverðs og verðum vitni að því að fjöldi fólks utan Suðurnesja er að flytja til svæðisins. Og það er mikið framboð af atvinnu. Vaðandi sveifla, eða þannig.

En hvað gera bændur þá? Jú, nú skal skellt í sóknarbolta og íbúar landsins látnir vita af því að hér sé allt frábært, geggjuð náttúra, næg atvinna, frábært menningar- og íþróttalíf, lágt húsnæðisverð og leikskólapláss fyrir börn frá 1 árs aldri. Koma svo!

Við munum á næstunni því verða vör við „betri“ fréttir um Suðurnesin í fjölmiðlum (ekki bara í Víkurfréttum sem hafa lagt sig fram við að benda á hvað allt sé í fínum málum og að Suðurnesjamenn séu að stíga upp eftir erfiða timburmenn bankahruns.) Heimamenn þurfa að taka þátt í átakinu og segja góðar sögur af íbúum og fyrirtækjum og öllu því góða sem fer fram á svæðinu. Það ætti ekki að vera erfitt. Af nógu er að taka og við skulum taka þátt í fjörinu. Framtakið er gott og þarft.