Góðærin

Fasteignamarkaðurinn á Suðurnesjum er líflegur þessa dagana eins og fram kemur á forsíðu Víkurfrétta í dag. Þannig er það reyndar líka víðar um land. Fólk sem af ýmsum ástæðum hafði ekki stækkað við sig eftir hrun, eða hafði misst eign sína og verið að leigja, sér nú fram á að geta keypt og þannig komist í framtíðarhúsnæði. Þá eru bankarnir farnir að bjóða upp á lán fyrir 90 prósentum af kaupverði fyrir fólk sem er að kaupa sína fyrstu eign. Sumir segja að það sé að koma góðæri aftur og er ýmislegt sem bendir til þess. Til dæmis er fólk farið að yfirbjóða fasteignir en það hefur víst ekki gerst hér á Suðurnesjum síðan fyrir hrun.

Þó svo að það sé eflaust gaman fyrir marga í góðæri er mikilvægt að muna eftir síðasta góðæri sem var líka skemmtilegt, en með sársaukafullum eftirköstum. Við fjölskyldan keyptum okkur framtíðarhúsnæði eftir bankahrunið og vorum heppin að hitta á reyndan fasteignasala sem bar hag okkar fyrir brjósti. Eftir langa leit fundum við hálfklárað hús sem vel gat rúmað sex manna fjölskyldu. Eftir að hafa farið í gegnum greiðslumat og allt var klappað og klárt og ekkert eftir nema að skrifa undir kaupsamninginn spurði fasteignasalinn mig hvort ég væri alveg viss um að vilja ráðast í þetta verkefni að kaupa óklárað hús. Hann hafði horft upp á svo margt ungt fólk kaupa sér ókláruð hús og spenna bogann svo alltof hátt við framkvæmdirnar. Þetta var rétt áður en við áttum að greiða honum mörg hundruð þúsund í sölulaun. Eftir gott spjall sannfærði hann mig um að best væri að kaupa bara eina og eina spýtu þegar fjárhagurinn leyfði. Nokkrum árum seinna er húsið okkar ekki enn fullklárað en það er í góðu lagi. Eitt er víst að ráðleggingarnar frá fasteignasalanum voru góðar og eiga jafn vel við núna og þá.