Gæðablóð um allt

Það fylgdi því alltaf mikill spenningur sem lítil stelpa að fara með föður mínum í gamla Blóðbankann við Barónsstíg og fylgjast með honum skrá sig inn, fá sér djús að drekka, fylla út lista á biðstofunni, fara í blóðþrýstings- og blóðmagnsmælingu í litlu herbergi og fylgja honum síðan inn í salinn þar sem hann lagðist á grænlitaðan bekk. Brosandi og hlýlegt hjúkrunarfólk, sem þekkti pabba iðulega með nafni, átti ekki í erfiðleikum með að finna væna æð á húðflúruðum og vöðvastæltum handlegg pabba. Svo horfði ég með athygli á glæran poka fyllast af blóði sem átti jafnvel eftir að bjarga lífi einhvers. Að lokum settumst við inn í annað herbergi þar sem kaffi og kræsingar biðu okkar. Ákvörðunin að verða sjálf blóðgjafi síðar var auðveld og sjálfsögð.

Ég man hvað ég varð síðar stolt af föður mínum þegar hann gaf, fyrstur Íslendinga, blóð í 100. sinn árið 1992. Hann hafði verið virkur blóðgjafi frá 21. árs aldri sem nemandi í Stýrimannaskólanum og þar var fastur liður í skólastarfinu að gefa blóð. Enginn þótti maður með mönnum nema vera blóðgjafi. Eftir skólann fór hann á sjóinn og varð síðar slökkviliðsmaður hjá Varnarliðinu og lærði til sjúkraflutningamanns. Starf hans var því viss hvatning um að gefa blóð og gaf hann alls í 142 skipti. Það gerir 70 lítra af blóði.

Ung og nýbökuð móðir, Birta Baldursdóttir, var hætt komin eftir bráðakeisaraaðgerð 20. júlí síðastliðinn. Í einlægu viðtali við Víkurfréttir rifjar unnusti hennar, Tryggvi Hrannar Jónsson, upp atburðarás sem þau munu aldrei gleyma. Hann var nýkominn með soninn í hendurnar: „Ég hafði ekki hugmynd um að móðurinni var að blæða út og hún barðist fyrir lífinu eftir aðgerðina. Það var mjög skrýtin tilfinning að svona frábær stund, að sitja með glænýjan son minn í fanginu, skyldi breytast á örskotsstundu í martröð.“

Litla fjölskyldan fékk alla þá bestu aðstoð sem hægt var að fá og í aðgerðinni sjálfri fékk Birta blóðmagn sem samsvarar um 30 blóðgjöfum. Allt fór á endanum vel. Á afmælisdegi sínum 11. ágúst hóf Tryggvi daginn á því að gefa blóð í fyrsta sinn og ætlar að vera virkur blóðgjafi. Fjölmargir hafa sýnt viðbrögð og gefið blóð og sent Tryggva textaboð þess efnis og myndskot því til sönnunar.  

Saga ungu fjölskyldunnar er ekki einsdæmi um mikilvægi blóðgjafa og það á í raun ekki að þurfa slíkar sögur til þess að hreyfa við hraustu fólki til að gefa blóð. Það munar um hverja gjöf, í öllum blóðflokkum, og þetta ætti að vera sjálfsagður hluti af lífsstíl og hugarfari. Leggjum inn í mikilvægasta og verðmætasta banka landsins. Gerumst gæðablóð.