Fyrsta sóknin!

Það var vitað að ekki yrðu allir sáttir við fyrstu sóknina hjá nýjum meirihluta Reykjanesbæjar. Þar var ákveðið að hækka fasteignaskatta og lækka kaup nærri 170 starfsmanna bæjarins, en það tvennt skilar 455 milljónum árlega í tóman bæjarkassa.  

Það er nokkuð ljóst að starfsmenn bæjarins, eða réttara sagt hluti þeirra, þurfa fyrstir að opna veskið. Þeir sem voru með í launum sínum samning um fasta yfirvinnu sem þeir hafa ekki unnið, og kannski líka fengið bílastyrk, fá mestu skerðinguna. Þessi fasta yfirvinna er nokkuð þekkt fyrirbæri í atvinnulífinu en þó aðallega hjá hinu opinbera, þ.e. sveitarfélögum og ríki, sem neyðast til að fara nákvæmlega eftir kjarasamningum. Til að ná til sín hæfu starfsfólki hefur þurft að bæta ofan á grunnlaunin á meðan fyrirtæki á almennum markaði eru ekki eins bundin við það. Nú er ekki vitað hver viðbrögð starfsmanna verða en heyrst hefur að einhverjir ætli að leita á önnur mið. Séu ósáttir við þessa aðgerð.

Margeir Vilhjálmsson, framkvæmdastjóri bílaleigunnar Geysis í Reykjanesbæ, gagnrýnir í grein í þessu blaði þá aðferð sem farin er í hagræðingu í rekstri bæjarfélagsins að 170 af 962 starfsmönnum muni taka stærsta skellinn með launalækkun. Hann bendir líka á að með mikilli fjölgun bæjarbúa á síðustu 8 árum hafi útsvarstekjur bæjarfélagsins lækkað hlutfallslega, þ.e. nýju íbúarnir skila miklu minna til sveitarfélagsins. Fólki með lágar tekjur hafi fjölgað meira. Það hefur neikvæð áhrif á rekstur bæjarsjóðs. Hann nefnir töluna einn milljarð króna sem upp á vanti árlega og tekur dæmi um árið 2006 og 2013. Meðaltekjur íbúa RNB eru miklu lægri 2013 voru árið 2006. Munurinn er rúmur milljarður. Því má ekki gleyma að þetta var síðasta ár hundruð starfsmanna á launum hjá Varnarliðinu því var þetta ár sterkt í útsvarstekjum en það er líka augljóst að það vantar fleiri hærra launuð störf á svæðinu. Þetta er vissulega það sem fyrrverandi meirihluti bæjarstjórnar og bæjarstjóri bentu á að t.d. með álveri myndi kaup hjá mjög mörgum hækka. En það má líka í þessu sambandi velta því fyrir sér hvers vegna mikið af hátekjufólki búi ekki í Reykjanesbæ. Til dæmis stjórar hjá mörgum stofnunum og fyrirtækjum á svæðinu. Það er svo sem ekki ný bóla og var algengt hjá Varnarliðinu en skiptir engu að síður máli til að hífa upp meðaltalslaunin og tekjur til bæjarins.


Almennt séð virðist þó sem fyrsta sóknin í aðgerðum bæjarstjórnar Reykjanesbæjar hafi fengið góð viðbrögð. Flestir vita að nauðsynlegt var að gera eitthvað. Flestir eru ánægðir með margt sem gert hefur verið í Reykjanesbæ, í umhverfinu, skólamálum og samgöngum. Með auknum fasteignasköttum og hærra útsvari nást um 455 millj. kr. árlega. Þeir tekjuhærri og eignameiri greiða meira. Hjón með 1 millj. kr. samanlagt á mánuði í tekjur og eiga húsnæði að fateignamati um 20 millj. kr. greiða um 100 þús. kr. meira á ári eftir þessar breytingar, rúmlega 8 þús. kr. á mánuði. Fólk með lægri tekjur og eiga ekki húsnæði greiða miklu lægri upphæð.

Það má því kannski segja að með þessum aðgerðum sé kannski verið að rukka fyrir ýmislegt sem hefur verið ókeypis, hvort sem það er strætó eða sund. Þegar öllu er á botninn hvolft er ekkert ókeypis. Það sem bæjarbúar vona er þó að hægt verði að lækka skuldir með öðrum hætti og að tekjuaukning eigi eftir að skila sér í bæjarsjóð þannig að hægt verði að draga til baka nýjar skattheimtur.

Páll Ketilsson
ritstjóri.