Fyrirmyndir eru mikilvægar

Ritstjórnargrein.

Nemendur og starfsfólk í Heiðarskóla fögnuðu liðsfólki sínu í Skólahreysti í frímínútum á mánudagsmorgun en skólinn tryggði sér sigur í keppninni föstudagskvöldið áður. Hundruð barna voru saman komin fyrir framan skólabygginguna til þess að berja fyrirmyndir sínar augum á svölum skólans. Já, Katla Rún Garðarsdóttir, Elma Rósný Arnardóttir, Andri Már Ingvarsson og Arnór Elí Guðjónsson eru sannarlega góðar fyrirmyndir.

Árangur grunnskóla á Suðurnesjum í Skólahreysti hefur verið einstakur undanfarin ár, en nemendur frá þeim hafa sigrað í fimm skipti af sex. Þar af sigraði Holtaskóli síðustu þrjú ár í röð og varð í öðru sæti í ár. Það verður að teljast einkar glæsilegur árangur.

Öflugar fyrirmyndir eiga það sameiginlegt að vera áberandi og um leið afar mikilvægar. Þegar ungt fólk nær svona góðum árangri verður það um leið öflug hvatning fyrir annað ungt fólk að setja sér markmið. Víða í grunnskólum eru nemendur í yngri deildum farnir að búa sig undir að keppa mögulega fyrir hönd sinna skóla í framtíðinni. Metnaðurinn skilar sér til þeirra.

Í kosningabaráttu eins og fram fer um þessar mundir keppast mörg framboð í öllum sveitarfélögum um athygli og atkvæði ungra sem eldri kjósenda. Þar er um að ræða stóran hóp fólks sem spannar ólík litbrigði samfélagsins; manneskjur sem hafa látið til sín taka á fjölbreyttum sviðum samfélagsins. Reynsla, þroski, viðhorf og skoðanir frambjóðenda eiga sér jafn margar og ólíkar sögur og fjöldi þeirra segir til um. Þetta eru einnig mikilvægar fyrirmyndir sem hafa bein áhrif á mótun samfélagsins.

Í íþróttum fer fram hugsjónastarf þar sem lögð er áhersla á drengskap og heiðarleika. Börnin læra það sem fyrir þeim er haft og þau verða kjósendur áður en við vitum af.

Olga Björt Þórðardóttir.