Framúrskarandi fyrirtæki og góðar fréttir

Tuttugu og fimm fyrirtæki á Suðurnesjum fengu útnefninguna „Framúrskarandi fyrirtæki“ í úttekt Creditinfo. Fjölgun vel rekinna fyrirtækja á Suðurnesjum á milli ára nam tæpum 60%. Það eru verulega góðar fréttir.

Nærri helmingur þessara fyrirtækja eru í sjávarútvegi en hin í ferðaþjónustu og fleiru. Víkurfréttir heimsóttu nýlega K&G fiskverkun sem er meðal þessara 25 fyrirtækja. Þar hafa ungir menn byggt upp fyrirtæki af skynsemi og þannig komist í þennan hóp „framúrskarandi fyrirtækja“. Á listanum eru öflug fyrirtæki sem eru á Suðurnesjum, m.a. Fríhöfnin og móðurfyrirtækið ISAVIA ásamt Bláa lóninu. Allt aðilar sem hafa fengið margar viðurkenningar fyrir góða þjónustu og starfsemi. Nýjustu fréttir á þeim bæ er auðvitað frábær útnefning Keflavíkurflugvallar - sem besta flugvallar í Evrópu 2014. Farþegarnir kjósa og þeir lofuðu Keflavíkurflugvöll þrátt fyrir að á árinu hafi verið mikið um framkvæmdir og breytingar. „Við höfum áður náð þessum árangri og fengum auk þess sérstaka viðurkenningu í fyrra fyrir að hafa verið meðal fimm bestu flugvalla undanfarin ár. Það er sérstaklega ánægjulegt að viðhalda þessum frábæra árangri þrátt fyrir hið mikla álag á þessu stærsta ári í sögu flugvallarins,“ segir Björn Óli Hauksson forstjóri ISAVIA.

Í blaðinu í þessari viku er greint frá góðum fréttum varðandi byggingu kísilvers Thorsils sem er alfarið í eigu Íslendinga. Fyrirtækið er búið að ganga frá sölusamningum 85% framleiðslunnar til áratugar við tvö rótgróin og öflug framleiðslufyrirtæki. Gert er ráð fyrir 350-400 ársstörfum á byggingartíma verksmiðjunnar sem eigendur vonast til að geti orðið á næsta ári samkvæmt heimildum Víkurfrétta. Þá er verið að tala um 130 ný störf þegar verksmiðjan verður fullbyggð auk afleiddra starfa. Hér er eingöngu verið að ræða um annað tveggja kísilvera en fyrsta skóflustunga vegna framkvæmda hjá United Silicon var tekin á síðasta ári. Starfsemi Thorsil mun kalla á 40 til 60 skipakomur til Helguvíkur á hverju ári. Það þarf ekki að fullyrða hversu mikil áhrif það mun hafa á rekstur Helguvíkurhafnar sem hefur verið í stórum mínus í mörg ár. Einn viðmælenda VF sagði aðspurður um nýjar fréttir af Thorsil að það væri ljóst að „þetta væri að fara að gerast“ en Suðurnesjamenn hafa haft varann á sér varðandi verkefni í Helguvík eftir að hafa brennt sig á of mikilli bjartsýni.


Við skulum halda áfram í vonina. Hér er allt á réttri leið þó hún hafi ekki verið greið.

Páll Ketilsson
ritstjóri