Framúrskarandi fyrirmynd

Verkefnin hjá okkur á Víkurfréttum eru mörg mjög skemmtilegt og eitt þeirra hefur síðustu 28 árin verið að kjósa „Mann ársins“ á Suðurnesjum. Við teljum okkur hafa hitt naglann á höfuðið núna sem og oft áður en hin 17 ára Elenora Ósk Georgesdóttir fékk nafnbótina að þessu sinni. Hún er bakaranemi, fyrirmyndar ung kona og frumkvöðull. Hún gerði sér lítið fyrir og bakaði í heilt ár glæsilegar tertur og seldi til styrktar Barnaspítala Hringsins og hljóp í maraþoni, einnig til styrktar spítalanum. Við brugðum á leik og pöntuðum tertu hjá ungu konunni áður en við greindum henni frá tíðindunum, mættum svo og báðum hana um að skrifa nafn „Manns ársins á Suðurnesjum 2017“ á tertuna. Þetta kom Elenoru skemmtilega á óvart og við sýnum viðbrögð hennar í sjónvarpsþætti vikunnar.

Við höfum útnefnt „Mann ársins“ á Suðurnesjum frá árinu 1990 en sá fyrsti sem var valinn var Grindvíkingurinn og útgerðarmaðurinn Dagbjartur Einarsson. Árið eftir varð presturinn Hjörtur Magni Jóhannsson fyrir valinu en fyrsta konan sem fékk nafnbótina var kaffikonan Aðalheiður Héðinsdóttir árið 1998. Flestir vita hvað hún hefur áorkað síðan en það eru fleiri slík dæmi hjá okkar fólki. Listi með nöfnum allra sem hafa verið valdir eru í blaði vikunnar.

Við höfum komið víða við í valinu en allt eru þetta einstaklingar sem hafa látið til sín taka á hinum ýmsu sviðum þjóðlífsins á Suðurnesjum og jafnvel víðar. Hin unga Elenora er sérlega vel að þessu komin og það skín af henni gleði og kraftur þrátt fyrir að hafa átt við veikindi að stríða sem hún hefur ekki látið stoppa sig. Hún ætti að vera mörgu fólki mikil hvatning fyrir framgöngu sína og dugnað.

Við greinum einnig frá því í blaði vikunnar að 32 fyrirtæki á Suðurnesjum hafi komist í hóp „Framúrskarandi fyrirtækja árið 2017“ hér á landi. Fyrirtækjum á Suðurnesjum hefur fjölgað í þessum hópi á undanförnum árum og er eflaust í takti við uppgang sem verið hefur á svæðinu á síðustu árum. Fyrirtækin eru úr mörgum greinum atvinnulífsins og er það mjög ánægjulegt. Það sýnir að forráðamenn margra fyrirtækja hafa staðið sig mjög vel, vandað sig í rekstrinum og sýnt það með ábyrgð og flottri niðurstöðu til að komast í hóp þeirra bestu á Íslandi en 2,2% fyrirtækja á landinu eru í þessum hópi, „Fyrirmyndarfyrirtæki 2017“.

Ótíðindi vikunnar koma þó úr Helguvík. Ekki óvænt en gjaldþrot United Silicon er ekki gott fyrir fjárhagshlið Reykjaneshafnar og bæjarins en margir bæjarbúar fagna þó að slökkt hafi verið á verksmiðjunni. Nýr eigandi hennar, Arion banki, mun þó ætla sér að koma henni til nýs eiganda sem fyrst. Ef það gerist þarf sá aðili að gera mun betur en sá sem reisti USi verksmiðjuna.