Framtíðarfólkið okkar er svo frábært

Það var skemmtilegt og fróðlegt að fylgjast með krökkunum í Ungmennaráði Reykjanesbæjar á fundi með bæjarstjórn Reykjanesbæjar í vikunni. Sex ungmenni héldu ræður þar sem þau fjölluðu um hin ýmsu mál sem þau telja að megi fá meiri áherslu eða athygli bæjaryfirvalda.

Bæjarfulltrúar sem eru á aldrinum 30 til 60 og yfir hlustuðu með athygli á unga fólkið ræða um það sem þyrfti að veita meiri athygli og styðja betur við, til dæmis þá sem lenda í andlegum veikindum en um 20 prósent ungs fólk stríðir við þunglyndi. Þau vilja miklu meiri fræðslu um mörg mál, til dæmis fjármál. „Við vitum ekkert um lán eða margt sem tengist bankastarfsemi. Hvernig á maður að spara? Hvað er lífeyrissjóður?,“ sögðu þau en þau vildu líka að þau fengju frí frá lærdómi um helgar. Þá væri meiri tími til að vera til dæmis með foreldrum og fjölskyldu. Fullorðna fólkið fær frí frá vinnu um helgar, var sagt. Sem er í flestum tilfellum alveg rétt. Flokkun sorps var á listanum, að færa klukkuna á morgnana yfir veturinn, vöntun á námskeiðum eins og til dæmis sjálfsstyrkingarnámskeiðum og fræðslu um samfélagsmál og stjórnmál. Já, þau voru mögnuð og bæjarfulltrúar brostu oft þegar þau heyrðu krakkana halda glimrandi tölu uppi í pontu, eins og þau hafi aldrei gert neitt annað. Það vantaði ekki sjálfstraustið hjá þeim. Þau kvörtuðu sáran yfir því að strætó væri ekki að standa sig í bæjarfélaginu og það þótti koma á óvart en svo komu líka góð hrós um ýmis mál. Einn sagði: „Það er ekki hægt að kvarta yfir tónlistarskólanum því hann er frábær og svo er hann eins og félagsmiðstöð.“

Ekki er ólíklegt að einhver þessara krakka eigi eftir að sitja í þessum stólum í framtíðinni. Alla vega vonum við það því þau sýndu það þarna að framtíðin er björt á Suðurnesjum. Við þurfum ekki að kvíða því þegar þau taka við.

Páll Ketilsson
ritstjóri.